10 C
Selfoss

Fjölskyldusvið Árborgar – samvinna í þágu barnsins

Vinsælast

Í Sveitarfélaginu Árborg eru starfandi fimm leikskólar og þrír grunnskólar. Skólarnir móta sjálfir megináherslur skólastarfsins en þrátt fyrir það er ætlast til að þeir taki mið af menntastefnu Árborgar og áherslum í aðalnámskrám leik- og grunnskóla þegar þeir vinna skólanámskrár sínar. Allar áætlanir skólanna eiga að vera í stöðugri endurskoðun og á það einnig við um menntastefnuna. Í Sveitarfélaginu Árborg eru einnig fjögur frístundaheimili og ein félagsmiðstöð ásamt ungmennahúsi. Breytingar voru á fjölskyldusviðið Árborgar í vor með samruna nokkurra deilda. Dagskráin leit við á fjölskyldusviði og kynnti sér þær breytingar sem þar hafa átt sér stað, í málefnum leik- og grunnskólabarna.

Áhersla á þverfaglega vinnu

Í samtali við Þorstein Hjartarson, sviðsstjóra fjölskyldusviðs Árborgar kemur fram að: „Fjölskyldusvið var stofnað 1. mars 2019 en þá runnu félagsþjónusta, skólar, skólaþjónusta og frístunda-og menningarþjónusta saman undir eitt fagsvið. Markmiðið er m.a. að móta sameiginlega sýn og verklag með áherslu á teymisvinnu, þróun úrræða, snemmtækt mat og snemmtæka íhlutun í málefnum barna svo eitthvað sé nefnt. Fjölskyldusviði er ætlað að styðja á fjölbreyttan hátt við starfshætti leik- og grunnskóla og fleiri stofnana sveitarfélagsins og starfsfólk þeirra ásamt fræðslu og ráðgjöf til foreldra og íbúa á öllum aldri. Ein viðbót, er nýtt starf verkefnisstjóra í snemmtækri íhlutun, sem Ástrós Rún var ráðin í í vor og er að móta ásamt okkur. Hennar hlutverk er m.a. að auka þverfglega samvinnu,“ segir Þorsteinn

Markmið að efla þverfaglega teymisvinnu

Ástrós Rún Sigurðardóttir er verkefnisstjóri í snemmtækri íhlutun, en um nýtt starf er að ræða á fjölskyldusviði eins og Þorsteinn nefnir hér að ofan. Aðspurð um markmið hennar segir hún: „Markmiðið er m.a. að auka enn frekar á samvinnu ólíkra fagstétta, efla þverfaglega teymisvinnu og einfalda allar boðleiðir á milli fagaðila og forráðamanna barnanna. Við viljum auka snemmtæk inngrip og forvarnir í náinni samvinnu við leikskóla, grunnskóla og foreldra. Við leggjum áherslu á sjálfseflingu, þ.e.a.s. að efla þátttöku og virkni barna og foreldra.“ Aðspurð hvort hún geti gefið dæmi segir Ástrós úr mýmörgum verkefnum að velja en meðal þess sem er efst á baugi þessi misserin er meðal annars aukin aðkoma fjölskyldusviðs að ráðgjöf í leikskólum sveitarfélagsins.

Ráðgjafarteymi leikskólanna

„Það er gaman að segja frá nýju verklagi í leikskólum sveitarfélagsins, en síðastliðin ár hefur yfirsálfræðingur skólaþjónustu ásamt leikskólaráðgjafa setið samráðsfundi á leikskólunum með góðum árangri. Að höfðu samráði við leikskólastjóra var ákveðið að efla þessa þjónustu enn frekar með stofnun ráðgjafateymis leikskólanna. Í ráðgjafateymi hvers skóla sitja leikskólastjóri og/eða aðstoðarleikskólastjóri, sérkennslustjóri,  deildarstjórar og þverfaglegur hópur ráðgjafa frá fjölskyldusviði Árborgar; leikskólaráðgjafi, verkefnisstjóri snemmtækrar íhlutunar, sálfræðingur, ráðgjafarþroskaþjálfi, félagsráðgjafi auk kennsluráðgjafa í fjölmenningu þegar þörf er á. Auk þess kemur hjúkrunarfræðingur frá HSU á a.m.k. einn teymisfund í hverjum leikskóla í vetur,“ segir Ástrós. Aðspurð um hvaða þýðingu þetta hefur í starfi leiksólanna segir Ástrós: „Ráðgjafateymið fundar á sex vikna fresti í hverjum leikskóla frá ágúst til júní ár hvert. Hver fundur er 120 mínútur, þ.e. 60 mín á hvort aldursstig. Fundir haustsins hafa gengið vel og erum við sammála um kosti þess að fleiri fagstéttir veiti ráðgjöf inn á leikskólana. Jafnt starfsmenn sem foreldrar hafa aðgang að teyminu og geta sent inn beiðni um ráðgjöf. Verklagið lofar góðu en við munum að sjálfsögðu halda áfram að þróa vinnulagið og efla þjónustu í þágu barna með það að leiðarljósi að bregðast sem fyrst við þegar ósk um ráðgjöf berst. Skólinn, bæði leik- og grunnskólinn er mjög mikilvægur í lífi barna, foreldra þeirra og starfsfólksins sem vinnur þar. Skólinn er samfélag þar sem meðlimir þess hafa tækifæri til að læra, kenna og þroskast,“ segir Ástrós að lokum.

Nýjar fréttir