-1.5 C
Selfoss

BBQ kjúklingur og döðludillonsdraumur

Vinsælast

Ég vil þakka Sunnu fyrir þessa skemmtilegu áskorun, matarboðið er greinilega enn þá á leiðinni með póstinum. En ég hef alltaf haft mikinn áhuga á öllu því sem tengist mat og matargerð. Ég elska að prufa einhvað nýtt í eldhúsinu og get alveg gleymt mér í eldamennsku eða bakstri. Ég ætla að setja hér tvær uppskriftir; annars vegar af uppáhalds kjúklingaréttinum mínum, sem er ekki bara einfaldur heldur líka virkilega bragðgóður, og hins vegar af uppáhaldskökunni minni.

BBQ-kjúklingur

1 pakki úrbeinuð kjúklingalæri
2 dl BBQ-sósa
1 dl soja sósa
1 dl apríkósumarmelaði
100 gr. púðursykur
50 gr. smjör

Sósuefni allt sett í pott og suða látin koma upp. Kjúklingabitum raðað í eldfast mót. Sósu hellt yfir kjúkling. Setja í 200°C heitan ofn í um 30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Gott að bera þennan rétt fram með hrísgrjónum og hvítlauksbrauði.

Döðludillonsdraumur

Uppskrift:

  • 250 gr. döðlur
  • 3 dl vatn
  • 1 tsk. matarsódi
  • 100 g smjör, mjúkt
  • 130 g púðursykur
  • 2 egg
  • 150 g hveiti
  • 100 g suðusúkkulaði, saxað

Ofn er hitaður í 180 gráður. Döðlur settar í pott ásamt vatni og látið suðuna koma upp, látið malla í 5 mínútur á lægsta hitanum. Þá er matarsóda stráð yfir döðlurnar. Því næst eru döðlurnar maukaðar í matvinnsluvél eða með töfrasprota.
Smjör og sykur þeytt vel saman í hrærivél og eggjum bætt út í, einu í senn. Því næst er döðlumauki bætt út í ásamt hveiti og súkkulaði, blandað vel. Deigið sett í smurt hringform (ca. 24 cm) og bakað í um það bil 30 mínútur.

Karamellusósa:

  • 120 g  smjör
  • 100 g púðursykur
  • 1/2 tsk. vanillusykur
  • 3/4 dl rjómi

Blandið öllu saman og látið sjóða í 5 mín. Kakan borin fram heit eða volg með heitri karamellusósunni og þeyttum rjóma.

Ég ætla að skora á svilkonu mína, vinkonu og húsmóður, Stellu Rúnarsdóttur, að verða næsti matgæðingur vikunnar. Hún er snillingur í að töfra fram hina ýmsu rétti í eldhúsinu. Hlakka til að sjá hvað hún býður upp á.

 

Random Image

Nýjar fréttir