12.3 C
Selfoss

Erasmus+ gerir mikið fyrir skólastarfið í Árborg

Vinsælast

Á undanförnum árum hefur starfsfólk skóla og skólaþjónustu í Árborg verið duglegt að sækja um styrki í Erasmus+. Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri hefur að undanförnu verið þátttakandi í evrópsku samstarfsverkefni en þar eru þátttakendur frá fjórum löndum, Spáni, Þýskalandi, Grikklandi og Íslandi. Verkefnið felur í sér að kynnast menningararfi landanna, skoða hvað er ólíkt og hvað sameinar þau. Nærumhverfi skólanna er skoðað og menningin og eru ferðirnar bæði kennaraferðir og nemenda¬ferðir. Fyrir nokkrum árum fóru þrír faghópar frá grunnskólum sveitarfélagsins og skólaþjónustu í námsferðir til Skotlands, Svíþjóðar og Danmerkur og þær ferðir skiluðu miklu fyrir skólamálin í Árborg. Þá hefur Vallaskóli m.a. tekið þátt í nokkrum Erasmus+verkefnum sem hafa haft jákvæð áhrif á starf skólans. Nýlega fór hópur frá Árborg til Eistlands og Finnlands til að kynna sér hvað þar er efst á baugi. Dagskráin ræddi við verkefnastjóra þess verkefnis, þær Önnu Ingadóttur, deildarstjóra skólaþjónustu, og Hrund Harðardóttur, kennsluráðgjafa.

Hverjir tóku þátt í ferðinni og hver voru meginmarkmið ferðarinnar? Um var að ræða 11 manna faghóp frá Árborg, flestir frá skólaþjónustu en einnig sviðsstjóri fjölskyldusviðs, tveir skólastjórnendur í Sunnulækjarskóla og verkefnastjóri í snemmtækri íhlutun. Hópurinn skoðaði bæði leik- og grunnskóla og  m.a. var horft á menntun fyrir alla, kennslufræðilegar áherslur, notkun tækni í námi og kennslu, skólaþjónustu, snemmtæka íhlutun og fjölmenningarlega kennsluhætti.

Hvað vakti helst athygli í Eistlandi? Það vakti athygli okkar að sjá þá áherslu, sem þeir skólar sem við heimsóttum í Tallinn, lögðu á róbótatækni og forritun. Grunnskólinn Tallinna Südlannia Kool lagði einnig mikla áherslu á að nýta sýndarveruleika í námi og kennslu. Þar er unnið mikið með samþættingu námsgreina og þegar nemendur vinna í sýndarveruleika¬stofunni þá tengist kennslan nánast öllum námsgreinum. Í leikskólum er verið að nota býflugnaróbóta (beebots), en lögð var áhersla að þeir væru notaðir sem ein leið til að læra. Yfirvöld í Eistalandi styrkja alla leikskóla til að kaupa róbóta til að nota í kennslu og þrýsta þar með á að leikskólar komi sér inn í hugsun fjórðu iðnbyltingarinnar.

Hvað vakti athygli í Finnlandi? Í Helsinki heimsóttum við einn grunnskóla, einn leikskóla, einnig Oodu bókasafnið, sem er menningarmiðstöð í hjarta borgarinnar, og  Annantalo, listasmiðju barnanna. Í grunnskólanum Roihuvuori, comprehenscive school er lögð  áhersla að vinna með áhugasvið hvers nemanda en allir þurfa að hafa sterkan grunn í finnsku og stærðfræði. Þar er lögð áhersla á að kennarar leiðbeini nemendum í árangursríkum aðferðum til að læra. Þá eru nemendur hvattir til ábyrgðar, samvinnu og sjálfstæðra vinnubragða. Í leikskólanum Kalinka var mikið rými á öllum deildum og mikið unnið með ævintýri, þar vakti athygli model af eikartré í sal skólans með alls konar ævintýrapersónum. Margt fleira væri hægt að nefna en við munum kynna það sem við sáum í sérstakri skýrslu og standa fyrir kynningarfundi fyrir alla sem áhuga hafa á. Þetta Erasmus+verkefni skilaði miklu og fer í hugmynda- og reynslubanka okkar allra sem tókum þátt.

Nýjar fréttir