9.5 C
Selfoss

Að draga skúffuskáldin fram í dagsljósið

Vinsælast

Í síðustu viku var formlega settur á laggirnar ritlistarhópur fyrir almenning á Suðurlandi. Stofnun hópsins sem er að frumkvæði Gullkistunnar á Laugarvatni og Bókabæjanna austanfjalls fór fram í húsnæði Bókakaffisins. Í samtali við Jón Özur Snorrason og Hörpu Rún Kristjánsdóttur sem halda utan um hópinn kemur fram að þau vilji draga skúffuskáldin fram í dagsljósið. „Markmiðið er að efla skapandi og í raun alls konar skrif í nærsamfélaginu. Með því að hittast reglulega og deila sameiginlegu áhugamáli myndum við vettvang samvinnu og hvatningar. Á þennan stofnfund mætti fólk úr Árborg, austan að Hvolsvelli, frá Hveragerði og ofan úr Biskupstungum. Það er greinilegt að landfræðileg takmörk skapandi skrifa eru engin“ segja þau og brosa í kampinn.

Aðspurð um starfið framundan segja Harpa Rún og Jón Özur það byggja á að hittast reglulega, deila skrifum, skrifa sameiginlega út frá þemum eða einstökum kveikjum, rýna til gagns í texta hvers annars, fá rithöfunda í heimsókn og hafa gaman að því að vera hluti af skapandi hópi. „Við getum bæði sótt þekkingu til íslenskra rithöfunda og alþjóðlegra því á Gullkistunni dvelja að jafnaði rithöfundar víða að úr heiminum. En núna erum við að hefja ferð sem leiðir okkur á áhugaverðar slóðir. Við erum alveg klár á því” segja þau að lokum.

Vinnuheiti hópsins er Ritlistarhópur Bókabæjanna og Gullkistunnar og getur fólk fundið hann undir því nafni á fjasbókinni. Stefnan sé þó að skíra barnið með áhugaverðarar nafni þegar fram líða stundir.

Nýjar fréttir