8.9 C
Selfoss

Kjötmjölið kom birkinu af stað

Vinsælast

Það er gömul saga og ný að forsendan fyrir gróðurframvindu er sú að gróðurinn hafi aðgang að næringu eða að komið sé í gang þeim náttúrlegu ferlum sem sjá gróðrinum fyrir næringu. Kjötmjöl er eitt af því sem gagnast hefur mjög vel við að koma lífi í líflaust land. Á Heiðarbrekku í Rangárþingi ytra er skemmtilegt dæmi um ógróið land sem nú er að breytast í birkiskóg með hjálp kjötmjöls.

Landið sem plantað var nánast ógróið fyrir þremur árum. Þá var borið kjötmjöl á svæðið í því skyni að bæta vaxtarskilyrði og efla þar með vöxt gróðurs. Vorið 2019 var landið farið að gróa talsvert og var þá plantað í það birki. Ánægjulegt er að sjá hvernig birkið hefur dafnað í sumar. Reynslan af notkun kjötmjöls á Hekluskógasvæðinu hefur sýnt að áburðaráhrif mjölsins endast nokkur ár og ætla má að kjötmjölið komi af stað örveru- og sveppalífi sem gerir ýmis næringarefni aðgengileg og stuðlar að sjálfbæru og heilbrigðu jarðvegslífi. Í nýskógrækt þar sem vistkerfið fer í gang með þeim hætti þarf ekki ítrekaða áburðargjöf til þess að skógurinn vaxi áfram og dafni.

Upp á síðkastið hafa verið í gangi ýmsar tilraunir með notkun ólíkra lífrænna úrgangsefna til uppgræðslu og skógræktar. Auk notkunar kjötmjöls á Hekluskógasvæðinu og víðar má nefna árangursríkar tilraunir með moltu til skóggræðslu á Hólasandi og notkun seyru til uppgræðslu á Hrunamannaafrétti sem einnig hafa gefið mjög góða raun. Miklar vonir eru nú bundnar við framsækið verkefni Mývetninga sem safna nú svartvatni frá hótelgestum og íbúum í Mývatnssveit sem verður nýtt til uppgræðslu á Hólasandi auk seyru úr rotþróm.

Það er til fyrirmyndar hjá skógarbændum á Heiðarbrekku í Rangárþingi ytra að reyna kjötmjölið til að koma trjágróðri í gróðurlaust land og gaman að sjá hversu skjótur árangurinn er.

Nýjar fréttir