2.3 C
Selfoss

Landspítali fær styrk til að þróa skilvirkari sérfræðiþjónustu við landsbyggðina

Vinsælast

Verkefni sem Landspítali vinnur að og felst í þróun tæknilausna til að stuðla að bættu aðgengi landsbyggðarinnar að sérfræðiþjónustu hlaut nýverið 5. milljóna króna styrk af byggðaáætlun Alþingis. Verkefnið snýr annars vegar að beinum samskiptum sjúklinga við sérfræðinga sjúkrahússins og hins vegar að þróun tæknilegra leiða til að skapa skilvirkan og öruggan farveg fyrir ráðgjöf sérfræðinga Landspítala við heilbrigðisstarfsfólk á landsbyggðinni.

„Konsúlt framtíðarinnar“

Þörf lækna og hjúkrunarfræðinga á landsbyggðinni fyrir aðstoð og ráðleggingar frá sérfræðingum Landspítala er mikil, líkt og segir í verkefnalýsingu Landspítalans. Mest af þessum samskiptum fer fram með símtölum og tölvupóstum eins og staðan er í dag. Þróunarverkefnið  — sem á Landspítala er kallað „Konsúlt framtíðarinnar“ — snýst um að útbúa farveg fyrir ýmsar samskiptaleiðir sem auðvelda „konsúlt“ og tryggja örugga skráningu upplýsinga í sjúkraskrá. Þannig geti sérfræðingar Landspítala og viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður við heilbrigðisstofnun úti á landi farið saman yfir sjúkrasögu sjúklings, skoðað blóðniðurstöður, hjartalínurit, röntgenmyndir o.fl. og enn fremur fengið aðstoð kerfisins til að leita uppi viðeigandi sérfræðinga þegar þess gerist þörf ef um alvarleg sjúkdómstilfelli er að ræða. Landspítali áætlar að virkni eins og að framan er lýst geti verið tilbúin til notkunar vorið 2020 og verði þá kynnt fyrir heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni.

Samskipti sjúklinga í heimabyggð við heilbrigðisstarfsfólk Landspítala

 

Verkefni sem Landspítali og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hafa unnið að saman hefur þegar alið af sér fyrstu útgáfu að lausn sem gerir sjúklingum á Vestfjörðum mögulegt að eiga samtal við geðlækni með öruggri leið í gegnum Heilsugátt. Tæknilega séð er þessi lausn komin á notkunarstig en hægar hefur gengið að koma henni í daglegan rekstur en vonir stóðu til. Stefnt er að því að nýta hluta styrksins sem Landspítalinn hefur nú fengið til að bæta þjónustu við landsbyggðina til að þróa þessa samskiptaleið enn frekar og koma henni í dagleg not.

Þessi verkefni Landspítalans eru í samræmi við markmið heilbrigðisstefnu til ársins 2030 um að jafna aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og sama markmið er einnig sérstaklega skilgreint í byggðaáætlun Alþingis sem fjallar um fjarheilbrigðisþjónustu (verkefni A.5.).

Nýjar fréttir