Aukin þjónusta í heimabyggð

Starfsemi Krabbameinsfélags Árnessýslu er nú komin á fullt skrið eftir langt og gott sumarfrí. Það er óhætt að segja að við komum tvíefld til starfa og er dagskrá haustsins bæði fjölbreytt og spennandi. Um leið og félögum fjölgar vaknar sú spurning hvort það sé í alvöru ánægjuefni að félag eins og okkar sé að stækka og eflast. Svarið fundum við út í sameiningu yfir góðum kaffibolla í okkar dýrmæta stuðningshópi sem hittist orðið vikulega. Já, það er ánægjulegt að félagið okkar sé að stækka og eflast, að félögum okkar sé að fjölga því það þýðir að fólk er að nýta sér það sem félagið hefur upp á að bjóða og vill þiggja jafningjastuðninginn. Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að krabbamein er að verða algengara, meðferðarúrræðum fjölgar og aukin vitundarvakning er meðal samfélagsins hvað varðar síðbúna fylgikvilla í kjölfar krabbameins. Einnig er aukinn skilningur og samþykki fyrir því innan samfélagsins að leita sér aðstoðar til að takast á við tilfinningarússíbanann sem fylgir því að krabbamein greinist í fjölskyldunni. Krabbamein hefur nefnilega áhrif á alla í fjölskyldunni og allir finna fyrir tilfinningum sem þeir geta átt erfitt með að takast á við.

Markmið Krabbameinsfélags Árnessýslu síðastliðin þrjú ár hefur verið að auka þjónustu í heimabyggð. Mikið hefur áunnist í þeim málum og enn erum við að auka við þjónustuna. Nú í september munu ráðgjafar frá Ráðgjafaþjónustu Krabbameinsfélags Íslands vera með vikulega dvöl á Selfossi og bjóða upp á viðtöl fyrir krabbameinsgreinda, fjölskyldur þeirra og aðstandendur. Við fögnum þessu samstarfi og þeirri auknu þjónustu sem félögum er boðið upp á í heimabyggð og hvetjum alla sem eru að takast á við krabbamein og afleiðingar þess, að nýta sér þessa faglegu þjónustu.

Með stuðningi skráðra félaga og félagasamtaka, líkt og Oddfellow, sem nýverið styrkti félagið um háa upphæð, gefst færi á að bjóða upp á fjölbreytta og faglega þjónustu í heimabyggð, byggja upp samstarf við þjónustuaðila og mæta þörfum félaga okkar á mismunandi stöðum í löngu ferli í kjölfar krabbameins.

Fyrir hönd Krabbameinsfélags Árnessýslu þökkum við innilega fyrir samhuginn, samstöðuna og þátttökuna í félaginu. Minnum á Facebook-síðu félagsins þar sem viðburðir eru auglýstir.

Svanhildur Ólafsdóttir, formaður