0 C
Selfoss

Lífið í FSu

Vinsælast

Fyrstu vikur skólaársins 2019/20 í Fjölbrautarskóla Suðurlands hafa verið viðburðaríkar og skemmtilegar fyrir nemendur. Þann 19. ágúst var nýnemadagur og á honum var skólinn kynntur fyrir nýnemum sem fóru svo í ratleik um skólalóðina. Nýnemahópurinn í ár er sterkur bæði náms- og félagslega og verður spennandi að sjá hann dafna og blómstra innan veggja skólans. Venjulegt skólahald hófst svo daginn eftir og er fjöldi nemenda þetta árið ríflega 800.

29. ágúst var kvöldvaka í skólanum ætlað nýnemum og var þar mikið fjör. Farið var í ýmsa leiki, brandarar voru sagðir og pizzur lagðar til munns. Kvöldið var hið besta hópefli.

Fjölmargar keppnir hafa verið haldnar í sameiginlegu miðvikudagsgati nemenda og hefur meðal annars verið krýndur Skólameistari í Skókasti, Rubik-kubba leysing, og að halda bolta á lofti.

Nýnemaballið fór fram þann 5. september í Hvíta Húsinu. Fjölmargar stjörnur þessarar kynslóðar tróðu upp og fór aðsóknin upp úr öllu valdi. Á endanum mættu 505 nemendur, fjöldi sem ekki hefur sést í langan tíma á viðburð nemendafélagsins. Skemmtanahald fór að mestu vel fram og höfðu eldri nemendur orð á því að þetta væri besta ball sem þeir hafi upplifað á sinni skólagöngu.

Forprufur fyrir Söngkeppni NFSu hefjast í þessari viku og ríkir mikil eftirvænting fyrir viðburðinum sem mun fara fram 24. Október næstkomandi í Iðu, Íþróttahúsi skólans. Viðburðurinn hefur verið árviss skemmtun Selfyssinga og nærsveitunga. Keppnin á Selfossi er talin einstaklega vegleg og jafnvel flottari en aðalkeppnin sjálf (söngkeppni framhaldsskólanna).

Aðspurðir eru nemendur skólans spenntir fyrir skólaárinu og vilja meina að bestu ár ævinnar séu í FSu.

BKv, Nemendafélag FSu.

Nýjar fréttir