9.5 C
Selfoss

Leikskólavettlingar

Vinsælast

Það styttist í vetrarveður og þá er gott að eiga hlýja og góða vettlinga. Okkar reynsla er sú að það er fátt betra en lopi í vettlinga, þeir eru hlýir og hrinda vel frá sér vatni. Sumum finnst þeir ekki nógu mjúkir, en þá er gott að nota plötulopa, hann er mýkri en léttlopinn, og með því að prjóna mohairþráð með bæði styrkir það vettlingana og mýkir.

Vettlingarnir eru prjónaðir með tvöföldu stroffi, annað fer upp á handlegginn en hitt utan um yfirhöfnina, þannig tolla vettlingarnir vel og hvorki sandur né snjór getur smogið inn á milli. Stroffin eru prjónuð úr einföldum plötulopa en vettlingurinn sjálfur með tvöföldum lopa, þannig verða vettlingarnir hlýrri.

Við notuðum nýju Crazy trio prjónana, þeir eru mjög vinsælir, enda einkar þjálir og gott að prjóna hvort sem er stroff, vettlinga eða þumla með þeim. Ekki spillir fyrir að prjónarnir eru með tvenn slags oddum þannig að það má snúa þeim eftir hvort hentar hverju sinni.

Við mælum hiklaust með því að prjóna fleiri en tvo vettlinga eins, þeir eiga það til að týnast og ef barnið á nokkra alveg eins vettlinga er hægt að nýta þá lengur.

 

Stærðir; 1-3-5 ára

Efni: Plötulopi, 1  dk Anisia mohair garn, prjónar no 4,5, prjónanælur.

Uppskrift

Stroff 1: Fitjið upp með einum þræði af lopa og einum af mohair 30-34-38 l og prjónið 1 sl, 1 br, alls 20-22-24 umf.

Stroff 2: Fitjið upp með einum þræði af lopa og einum af mohair 45-51-57  l og prjónið *2 sl, 1 br* alls 5-6-7 umferðir. Í næstu umferð er tekið saman þannig; prjónið *2 sl saman, 1 br, 2 sl, 1 br, 2 sl, 1 br* endurtakið * *  út umferðina. Í næstu 5-6-7 umf er prjónað slétt yfir slétta lykkju og brugðið yfir brugna. Þá er tekið aftur saman þannig; prjónið *1 sl, 1 br, 2 sl saman, 1 br, 2 sl, 1 br* endurtakið * *  út umferðina. Í næstu 5-6-7 umf er prjónað slétt yfir slétta lykkju og brugðið yfir brugna. Takið nú saman í þriðja sinn þannig; prjónið *1 sl, 1 br, 1 sl, 1 br, 2 sl saman, 1 br* endurtakið * *  út umferðina. Prjónið eina umferð slétt yfir slétta lykkju og brugðið yfir brugna.

Nú eru stroffin sameinuð þannig að stroff 1 er lagt inn í stroff 2 og lykkjurnar prjónaðar saman (fyrsta slétta lykkja af stroffi 1 prjónuð saman við fyrstu slétta lykkju af stroffi 2, svo brugnu lykkjurnar saman brugðið og áfram þannig út umferðina). Prjónið 4-5-6 umf stroff (1sl,1br).

Bætið nú einum þræði af lopa við þannig að prjónað er með 2 þráðum af lopa og 1 þræði af mohair. Prjónið slétt prjón en fækkið jafnt yfir umferðina um 6- 6-6 l þannig að nú eiga að vera 24-28-32 l í umferðinni. Prjónið 4-5-6 umf sléttar.

Nú er aukið fyrir þumli þannig að aukið er út um 1 l eftir fyrstu l umferðar og 1 l á undan síðustu l umferðar. Prjónið 1 umf án útaukningar. Aukið í næstu umferð um 1 l eftir 2 l umferðar og 1 á undan 2 síðustu l umferðar. Prjónið 1 umf slétta. Í næstu umferð eru síðustu 3 l umferðar og fyrstu 3 l settar á nælu og fitjaðar upp 2 nýjar l í staðinn. Prjónið áfram slétt, alls 8-10-12 umf.

Hér hefst úrtaka. Prjónið 1 l sl, takið næstu l óprjónaða, prjónið næstu l og steypið óprjónuðu l yfir, prjónið 6-8-10 l sl, prjónið 2 l saman, 2 l sl, takið næstu l óprjónaða, prjónið næstu l og steypið óprjónuðu l yfir, prjónið 6-8-10 l sl, prjónið 2 l saman, 1 l sl. Prjónið næstu umferð slétta. Takið aftur úr eins og áðan, nema nú eru 4-6-8 l á milli úrtaka. Prjónið 1 umf slétta. Takið aftur úr en athugið að nú eru 2-4-6 l á milli úrtaka. Takið nú úr í hverri umferð þar til 8 l eru eftir. Slítið þá garnið frá og dragið það í gegnum lykkjurnar sem eftir eru.

Takið nú lykkjurnar fyrir þumalinn og takið upp 4 l ofan við (10 l á prjónunum) prjónið slétt í hring, alls 5-7-9 umferðir. Takið  nú úr þannig; takið fyrstu l óprjónaða, prjónið næstu l og steypið óprjónuðu l yfir, prjónið 1-2-3 l sl, prjónið 2 l saman, takið næstu l óprjónaða, prjónið næstu l og steypið óprjónuðu l yfir, prjónið 1-2-3 l sl, prjónið 2 l saman. Haldið úrtöku áfram þar til 4 l eru eftir, slítið garnið frá og dragið í gegnum lykkjurnar.

Gangið frá endum, skolið úr mildu sápuvatni og gleðjið barn með nýjum vettlingum.

Uppskrift: Þóra Þórarinsdóttir

 

Nýjar fréttir