10 C
Selfoss

Tískuhús í Búgarðabyggðinni við Selfoss

Vinsælast

Það er ekki mörgum sem myndi gruna að í snotru húsi í Búgarðabyggðinni væri rekin hátísku fataverslun og verkstæði. Þar ræður ríkjum fatahönnuðurinn María Lovísa, sem er búin að koma sér vel fyrir í Búgarðabyggðinni milli Selfoss og Eyrarbakka. „Elskan mín, það er svo gott að vera kominn hingað austur fyrir fjall. Laugarvegurinn er búinn sem og Skólavörðustígurinn sem verslunarpláss segir María Lovísa og glottir við tönn. Við erum búin að koma okkur fyrir á saumastofunni þar sem töfrarnir verða til. Þar eru flíkur á gínum, saumavélar og allskyns litir tvinnar sem María er að vinna með þessa dagana. „Sumrin hjá mér fara svolítið í íslensku ullina og að sauma fyrir ferðamanninn. Ég hef sent vörurnar mínar í valdar verslanir og svo út á flugvöll. Þetta eru vinsælar peysur enda klæðilegar og nýtískulegar,“ segir María.

Verslun og verkstæði í sveitinni

María Lovísa hefur komið nálægt rekstri tískuvöruverslana í fjöldamörg ár. Hún útskrifaðist úr Magaretha tískuskólanum í Kaupmannahöfn árið 1979 og má segja að hún hafi rekið verslanir með eigin tískuvörum óslitið síðan. „Ég lokaði versluninni á Skólavörðustígnum og flutti mig hingað austur. Það er svo á stefnuskránni hjá mér að opna fyrir verkstæðið hérna sem við sitjum í og fólk kemur bara hingað. Ég sé ekki fyrir mér að fara í einhvern búðarrekstur í Reykjavík aftur komin á þennan aldur,“ segir María Lovísa hlæjandi. „Ég er náttúrulega búin að vera í þessum bransa í fjöldamörg ár, og er hvergi nærri hætt get ég sagt þér. Hingað koma konur til mín á öllum aldri. Ýmist eru þær að ná í tilbúinn fatnað sem ég hef hannað eða að fá mig í að lagfæra fatnað sem þær eiga. Ef maður á góðan fatnað er ástæðulaust að henda því og lítið mál að lagfæra og breyta. Blaðamaður horfir í þessum töluðu orðum í kringum sig og spyr hálf áttavilltur hvort viðmælandinn vinni aðallega í ull. „Nei biddu fyrir þér. Hér er unnið í allt efni,“ segir María og horfir rannsakandi á undirritaðan. „Allt frá íslenskri ull yfir í dýrasta silki. Hvað sem þig langar. Hinn handleggurinn á versluninni og verkstæðinu er svo auðvitað sérsaumurinn. Þar verða galdrarnir til og ég sníði og sauma á konurnar sem hingað koma alvöru tískuföt úr góðum og vönduðum efnum sem þær velja með mér,“ segir María með áherslu í röddinni.

Hestar, hátíska og sveitin

Það er eitthvað spennandi að sitja inni á verkstæðinu hjá Maríu Lovísu. Næstum eins og maður heyri saumavélaniðinn og sjái hugmyndirnar fljúga um í loftinu. Ævintýralegur heimur er rétta hugtakið. Fyrir utan eru hestarnir hennar að norpa í síðasta grashýjung sumarsins. María bendir blaðamanni á sófa sem þarna er og segir; „Þú ættir eiginlega að taka mynd af mér í honum þessum. Ég hafði fyrir því að finna hann á háalofti í Danmörku, bólstra hann upp og flytja hann svo með mér, hann á sögu þessi get ég sagt þér.“ Spurð um hvernig hátískan, sveitin og íslenski hesturinn fari saman segir María Lovísa: „Þú sérð það með berum augum. Hér gerist ýmislegt og konur ættu endilega að kíkja til mín. Það er þó betra að hringja í mig fyrst, ef ske kynni að ég hefði brugðið mér frá, segir María að lokum. Hún réttir svo blaðamanni númerið með ósk um birtingu. 698 3413. Maður segir ekki nei við Maríu enda með skemmtilegri viðmælendum.

 

Nýjar fréttir