-7.1 C
Selfoss

Ljóð, geithorn og gluggi inn í fortíðina

Vinsælast

Andrúmsloftið var venju fremur ákjósanlegt á haustupplestri Bókabæjanna og Bókakaffisins á dögunum. Þrátt fyrir úrhelli og fjárrag víða um sveitir safnaðist drjúgur mannfjöldi saman til að hlíða á skáld, af ýmsu tagi.

Fyrstar stigu á svið Svikaskáldin, Þóra Hjörleifsdóttir og Sunna Dís Másdóttir. Þær lásu úr eldri ljóðabókum hópsins, jafnframt því að kynna þá nýjustu, Nú sker ég netin mín sem kemur út á haustdögum.

Sigurður Ingólfsson las úr nýútkominni bók sinni, Í orðamó. Sigurður á rúmlega þrjátíu ára útgáfuferil að baki. Nýja bókin sýnir vel breidd hans sem skálds, þar sem ljóðin eru margvísleg að formi og efni. Einnig las hann úr henni bráðsnjalla þýðingu á dularfullu kvæði.

Vilborg Davíðsdóttir höfundur þríleiksins um Auði djúpúðgu hefur ekki sagt skilið við ættboga Auðar. Hún las kafla úr verki í vinnslu um afkomendur Auðar á Íslandi, en áæltað er að sú bók komi út árið 2020. Þetta er í fyrsta sinn sem Vilborg les úr óútkomnu verki og þurfti nokkrar fortölur til. Lesturinn var þó sérlega vel heppnaður þar sem kynngimögnuð tónlist norsku hljómsveitarinnar Wardruna, sem leikur meðal annars á geithorn og önnur forn hljóðfæri, magnaði upplifun áheyrenda af því að vera staddir við blót og þingsetningu til forna.

 

Nýjar fréttir