6.1 C
Selfoss

Hvergi nærri hætt

Vinsælast

Það er ekki á hverjum degi sem maður hittir jafn lífsglaða og lifandi konu eins og Hjördísi Geirsdóttur, söngkonu. Við mæltum okkur mót á Bókakaffinu á Selfossi, en Hjördís mun syngja í Hveragerði með Stórsveit Íslands 28. september nk. Hjördís heldur einnig upp á 60 ára söngafmæli sitt um þessar mundir og verður með tónleika í Salnum þann 20. október að því tilefni. Það er því nóg framundan hjá hinni eldhressu Hjördísi.

Hlakkar til að syngja í Hveragerði

Hjördís hefur víða komið við á ferli sínum og eins og hún segir sjálf, „sungið allt sem að kjafti kemur“. „Ég hef sungið það sem er vinsælt hverju sinni, lögin sem fólkið vill heyra. Allt frá því þegar rokkið var aðeins að byrja, gömlu dansana og alveg hreint yfir í diskólögin. Ég er ekkert að velta því fyrir mér,“ segir Hjördís og dillandi hláturinn og einlægt brosið hrífur mann með. Það er ekki að spyrja að því að Hjördís hefur margoft sungið í Skyrgerðinni í Hveragerði þó húsin hafi heitið öðrum nöfnum. „Á sveitaballatímanum var ég, ung stelpa, kannski 16 ára, þarna uppi á senunni í Skyrgerðinni og húsið alveg troðfullt af fólki. Dásamlegt alveg. Nú ætlar Stórsveit Íslands að halda tónleika og þeir voru svo elskulegir að bjóða mér að syngja með sér. Það verður einstaklega gaman að koma aftur á senuna, þó ég verði líklega ekki uppi á senunni sjálfri því stórsveitin þarf sitt og ekki pláss fyrir mig,“ segir Hjördís og hlær.

Sveitaböllin voru á svo breiðum grundvelli

Aðspurð um ferilinn segir Hjördís engum vafa undirorpið með að hún sé alin upp tónlistarlega í sveitaböllunum. „Það er líklega þess vegna sem ég víla ekkert fyrir mér og ég festist aldrei í einhverju einu. Mér er alveg sama hvort það er jazz, mikið sem ég elskaði hana Ellu Fitzgerald, já eða bara rokkið eða gömlu dansarnir. Þegar ég var að byrja var rokkið svona aðeins að koma. Það þurfti líka á böllunum í gamladaga að vera danslög. Það þurfti að vera hægt að dansa við tónlistina, þessa hefðbundnu dansa. Það breyttist svo aðeins með tilkomu diskósins. Þá þurftu pörin ekki að taka upp hald eins og sagt var,“ segir Hjördís og hlær dátt.

Söngurinn á hverja taug og Hjördís segir að það hafi alltaf verið þannig. „Þetta bara er og hefur alltaf fylgt mér. Ég má til með að segja þér sögu af því þegar ég var eitthvað um 14 ára og hékk á gluggum hér á Hótel Selfossi. Fyrir innan var KK sextett, Ellý og Raggi Bjarna. Mig langaði svo inn að ég bara gat ekki á mér setið. Ekki til að fara að skemmta mér heldur bara hlusta. Svo kom aðvífandi piltur sem ég kannaðist við og tók mig með sér inn. Sá á andlitinu á mér hvað mig dauðlangaði inn. Hann setti mig út í horn og stól undir rassinn á mér og sagði „þú verður kyrr hér“. Ég fór ekki fet og hlustaði þarna á KK sextettinn, Ellý og Ragga. Ég féll alveg í stafi yfir þessu öllu saman og má segja að stuttu seinna hafi ég verið farin á fullt í sönginn og ekki hætt síðan.“ -gpp

 

Myndir:

(Hjördís Geirsdóttir)

Nýjar fréttir