11.1 C
Selfoss

Námskeið í Tai chi á haustdagskrá Gullkistunnar

Vinsælast

Haustdagskrá Gullkistunnar á Laugarvatni er í burðarliðnum og kallast einu nafni Morgunskógurinn. Þar verður áhersla lögð á hvers konar skapandi starf og kennir þar ýmissa grasa meðal annars námskeið með rithöfundunum Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Hlín Agnarsdóttur og Elísabetu Jökulsdóttur. Reyndar hófst dagskráin formlega þann 23. ágúst síðastliðinn á opnu húsi þeirra sex erlendu listamanna sem dvöldu þar í ágúst en opnu húsin eru reglulegur þáttur í því að kynna almenningi þá starfsemi sem fram fer á Gullkistunni.

Næstkomandi sunnudag 15. september heldur Marina Orozo, ljóðskáld frá Barcelona námskeið í Tai chi. Henni til aðstoðar verður Emilía Jónsdóttir íþróttakennari. Tai chi er æfingakerfi sem tengir saman hægar, mjúkar og flæðandi hreyfingar, hugleiðslu og öndunartækni. Líkaminn er á stöðugri hreyfingu og því er Tai chi oft kallað hugleiðsla með hreyfingu og er heilsuræktarkerfi sem á uppruna sinn í 13. aldar kínverskri bardagalist og miðast við að lífsorkan streymi um allan líkamann og komi í veg fyrir að orkuflæði líkamans stíflist. Boðið verður upp á nýbakað brauð, te og kaffi í hádeginu. Ekki er krafist aðgangseyris en óskað eftir frjálsum framlögum og eru allir hjartanlega velkomnir. Fjöldi þátttakenda miðast við 10 og er því nauðsynlegt að skrá sig á gullkistan@gullkistan.is. Námskeið Gullkistunnar eru styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

 

 

Nýjar fréttir