1.7 C
Selfoss

Kjötsúpuhátíðin á Hvolsvelli 2019

Vinsælast

Haustið heilsaði íbúum í Rangárþingi eystra um liðna helgi þar sem fram fór Kjötsúpuhátíðin á Hvolsvelli.
Íbúar skreyttu hýbýli sín og götur í öllum regnbogans litum. Mikill metnaður er fyrir skreytingakeppninni og veglegir vinningar eru veittir fyrir bestu og frumlegustu skreytingarnar.

Dagskráin hófst á föstudeginum en þá fór meðal annars fram frisbígolfmót Kjötsúpunnar sem var haldið í fyrsta sinn. Þátttaka var framar vonum en 25 manns tóku þátt í mótinu. Keppt var í barna-, kvenna- og karlaflokki og verðlaun veitt fyrir efstu sætin.

Um kvöldið var svo hið margrómaða súpurölt sem hefur verið partur af hátíðinni í langan tíma og er einn af stóru viðburðum hátíðarinnar.  Á súpuröltinu bjóða íbúar gestum og gangandi til sín í súpu af ýmsu tagi. Í ár voru sex staðir sem buðu heim og var þátttaka mjög góð enda viðraði vel til að taka göngutúr um bæinn og gæða sér á gómsætri súpu.

Laugardagurinn hófst á hinu árlega Naflahlaupi. Þar var í boði að hlaupa tvær vegalengdir 7 og 14 km. Aldrei hafa fleiri tekið þátt í hlaupinu, en 120 manns voru skráðir. Á hverju ári er ágóði hlaupsins ánafnaður góðu málefni. Um hádegisbil hófst hin eiginlega hátíðardagskrá á Miðbæjartúninu á Hvolsvelli og var gestum boðið til kjötsúpuveislu hjá Sláturfélagi Suðurlands sem hefur verið fastur dagskrárliður frá upphafi hátíðarinnar. Margt var um manninn og létu gestir rigningu ekki á sig fá, heldur klæddu sig eftir veðri og tóku virkan þátt.
Í ár var áhersla lögð á dagskrárliði úr héraði og voru tónlistaratriði, ljóðaupplestur og fleira frá fólki úr sveitarfélaginu. Umhverfis- og skreytingaverðlaun voru veitt og sveitarlistamaður Rangárþings eystra 2019 kynntur. Að þessu sinni var það Maríanna Másdóttir sem hlaut þann titil. Hún hefur auðgað samfélagið í langan tíma með söng og söngkennslu og hefur ásamt fleirum síðastliðin ár staðið fyrir frábærum jólatónleikum á Hvolsvelli. Þar koma saman listamenn úr sveitunum í kring og koma íbúum í jólaskapið í upphafi aðventunnar.

Einnig voru fastir liðir á dagskrá Kjötsúpuhátíðarinnar eins og vatnaknattleikurinn sívinsæli, brenna,  brekkusöngur og glæsileg flugeldasýning sem björgunarsveitin Dagrenning stóð fyrir. Kjötsúpuballið var á sínum stað og hljómsveitin Allt í Einu sá um að trylla lýðinn langt fram á nótt.

Lokadagur hátíðarinnar var á sunnudag en söguganga með Ísólfi Gylfa Pálmasyni fór fram um morguninn og dagskrá lauk á harmonikkutónleikum á dvalarheimilinu Kirkjuhvoli.

Hátíðin gekk í alla staði vel fyrir sig og voru dagskrárliðir fyrir alla fjölskylduna. Hátíðin var vel sótt og við hlökkum til að sjá enn fleiri sækja okkur heim á næsta ári.
Við viljum þakka öllum sem að hátíðinni komu fyrir að gera þessa dagskrá mögulega. Hátíð með þessu sniði er ekki hægt að halda nema með aðkomu heimamanna og því viljum við þakka öllum sem lögðu hönd á plóg.

Nýjar fréttir