Er nýliðanám í björgunarsveit eitthvað fyrir þig?

Salóme Þ. Guðmundsdóttir

Ekki spurning!, segir Salóme Þ. Guðmundsdóttir aðspurð um hvort hún mælti með þátttöku í starfi björgunarsveitanna. Nýliðakynningar björgunarsveitanna eru nú í fullum gangi og Dagskráin hafði samband við Salóme sem stóð í þeim sporum fyrir um ári og spurði hana út í námið og starfið.

Það runnu á mig tvær grímur þegar ég var langelst af nýliðunum

Mynd: Aðsend.

„Ég rakst á auglýsingu um nýliðakynningu frá Björgunarfélagi Árborgar sl. haust og ákvað að mæta á fyrstu kynninguna og sjá hvert það myndi leiða mig. Þegar ég svo mætti fannst mér áberandi að ég var langelst af þeim sem mættu, svona fyrir utan kennarana, og þá runnu á mig tvær grímur verð ég að segja,“ segir Salóme hlæjandi. „Mér fannst ég alls ekki tilheyra þessum hópi. Þegar kom að spurningum að lokinni kynningu og hópurinn farinn að spyrja úr salnum læddi ég því að hvort ég væri kannski aðeins of gömul í svona starf, kona komin yfir fimmtugt. Ó nei. Sú hugsun var kæfð í fæðingu af Ragnari Hólm nýliðaleiðbeinanda. Hann sagði við mig að það væri kærkomið fyrir félagið að fá lífsreynda manneskju í starfið og hitt myndi ég svo bara læra með tímanum. Það reyndust orð að sönnu.“ Aðspurð um ástæður þess að hún ákvað að fara í björgunarsveit segir Salóme: „Mér hefur alltaf fundist svo mikil dulúð og dugnaður einkenna starf björgunarsveitarfólks. Mig langaði að verða hluti af því og það fyllir mig heiðri að hafa náð þeim áfanga.“

Umfram allt hef ég lært mest á sjálfa mig og hvers ég er megnug

Salóme útskrifaðist úr fyrsta hluta björgunarsveitarnámsins í lok maí á þessu ári. „Þá fannst mér ég vera komin heim, fann að þetta átti einstaklega vel við mig að vera úti í náttúrunni og takast á við krefjandi verkefni. Þetta á reyndar svo vel við mig að ég ætla að klára frekara nám sem heitir Björgunarmaður 2 fyrir næsta vor,“ segir Salóme sem er hvergi nærri hætt.

„Það er svo heillandi í sambandi við þetta, bæði sjálfboðaliðastarfið sjálft og svo námið. Ég hefði aldrei trúað því að ég ætti eftir að fara í ísklifur og klettaklifur, lofthrædd manneskjan. Þetta hafðist þó allt með þolinmæði góðra félagsmanna og leiðbeinenda. Þá lærir maður ýmsa nýstárlega hluti, fyrir mér a.m.k. eins og að læra að lesa í snjó, rata og rekja spor, en umfram allt hef ég lært mest á sjálfa mig og hvers ég er megnug.“

Allir velkomnir um borð í félagið

Mynd: Aðsend.

Ef við komum aftur að því að ræða um hverjir eiga heima í björgunarsveitum segir Salóme: „Fólkið hjá BFÁ spyr ekki um kyn, stétt eða aldur. Allir eru velkomnir og mér fannst einstaklega vel tekið á móti mér þegar ég mætti og hef alltaf upplifað mig velkomna í hópinn. Ef maður er tilbúinn til að breyta til, fara hressilega útfyrir þægindarammann, þá er þetta rétti vettvangurinn, því hér geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Ef þú treystir þér ekki í eitthvert verkefni þá máttu og áttu að sleppa þeim. Þú bara finnur þér eitthvað annað að gera sem þér líður vel með og það finnst mér svo heillandi við félagið.“