10 C
Selfoss

Akademía Selfoss Körfu og FSu vekur athygli hæfileikaríkra íslenskra og erlendra leikmanna

Vinsælast

Selfoss Karfa hefur í sumar lagt áherslu á þróun yngri leikmanna fyrir komandi átök í 1. deildinni í vetur, og þar með endurvekja megináherslur körfuboltaakademíu félagsins við FSu. Það stefnir í veglega áskorun fyrir unga leikmenn drengja- og unglingaflokks að vinna sér sæti í meistaraflokksliði Selfoss.

Meirihlutinn af þessum leikmönnum kemur til með að æfa í körfuboltaakademíunni, ásamt því að stunda nám við skólann. Við tókum Chris Caird, þjálfara akademíunnar, í spjall til að fara yfir starfsemi akademíunnar.

Tengd grein:
Nýir samningar við unga leikmenn

Hvernig virkar akademían?
„Akademían er áfangi innan Fjölbrautaskóla Suðurlands. Leikmenn æfa 4 sinnum í viku þar sem hver tími er 55 mín. Æfingarnar skiptast í upphitunarteygjur, bolta- og skotæfingar ásamt því að ég og aðstoðarþjálfarinn minn, Rui Costa, förum yfir aðstæður sem leikmenn lenda í í leikjum. Einnig hafa leikmenn möguleika á styrktar-æfingum tvisvar í viku fyrir skóla.“

Hverjar eru megináherslur akademíunnar?
„Okkar megináhersla er að vinna að þróun leikmanna innan akademíunnar til að hjálpa þeim að ná markmiðum sínum í körfubolta. Við förum í grunnatriði körfuboltans þar sem leikmenn fá þjálfun í leikhæfni og atvikum sem þeir kunnu að lenda í í leikjum. Ef við náum að vinna í þessum hlutum og hjálpa leikmönnum með körfuboltagreind sína, þá eru þeir komnir skrefi lengra en aðrir leikmenn.“

Getur hver sem er skráð sig í akademíuna?
„Já, allir sem hafa löngun til að æfa og bæta sig sem körfuboltaleikmaður geta skráð sig og æft undir skilyrðum akademíunnar. Í akademíunni eru ekki bara leikmenn frá Selfossi heldur líka frá bæjarfélögum í nágrenninu og landinu öllu, reyndar líka erlendis frá. Þetta gefur okkur mjög breiðan hóp hæfileikaríkra einstaklinga sem leiðir til mikillar samkeppni á æfingum og gefur okkur tækifæri til að skipta hópnum upp eftir getu, þannig að allir fái æfingar við sitt hæfi.“

Er spilað undir merkjum akademíunnar?
„Já, við erum með drengjaflokkslið (undir 18 ára) sem samanstendur af bestu leikmönnum akademíunnar. Á komandi tímabili mun Rui Costa sjá um þjálfun þess liðs. Einnig erum við með unglingaflokkslið (undir 20 ára) sem verður samblanda af leikmönnum frá Selfossi, Hamri og Hrunamönnum. Ég mun sjálfur þjálfa og stjórna því liði.“

ViÐ verðum með ungt lið og mörg ný andlit, þar sem þrír fjórðu af liðinu skipa leikmenn undir 20 ára.

Er áhugi frá erlendum leikmönnum að æfa í akademíunni?
„Já, við verðum með þrjá erlenda stráka sem bætast við hópinn á þessari önn. Þeir hafa allir spilað með yngri landsliðum síns lands og koma líka til með að bætast við í hópinn hjá meistaraflokki Selfossliðsins. Í framtíðinni vonumst við til að fá fleiri hæfileikaríka leikmenn, sem og Íslendinga, til að halda áfram að bæta ofan á þá vinnu sem við höfum lagt á okkur undanfarið ár; að sjá heildarmyndina og möguleika að fara langt í körfubolta ef þeir hafa rétta leiðsögn.

Það er mjög spennandi að ungir leikmenn, hvaðanæva að úr Evrópu, taki eftir getu okkar til að þróa næstu kynslóð leikmanna og velji akademíuna okkar.“

Hvaða breytingar hafa orðið á akademíunni síðustu ár?
„Við höfum breytt uppbyggingu hennar, vinnubrögðum þjálfara og hvernig henni er stjórnað. Við höfum lagt meiri áherslu á ákveðna þætti körfuboltans, bæði utan og innan vallar með það að leiðarljósi að búa til heilsteyptari leikmenn. Einnig með komu erlendra leikmanna myndast meiri samkeppni meðal leikmanna á æfingum ásamt öðruvísi leikstíl.“

Sérðu fyrir þér meistaraflokkinn fara langt á komandi tímabili?
„Það er of snemmt að segja, við verðum með ungt lið og mörg ný andlit, þar sem þrír fjórðu af liðinu eru leikmenn undir 20 ára. Staðreyndin er sú að 1. deildin er orðin mun sterkari en hún var þar sem mörg lið eru með marga erlenda leikmenn með mikla reynslu. En þetta tímabil verður spennandi fyrir mig sem þjálfara því ég veit að við munum sjá leikmennina og liðið þroskast eftir því sem líður á tímabilið, en það sáum við einmitt líka gerast á síðasta tímabili. Við munum þurfa tíma til að byggja upp liðsheild innan sem og utan vallar. Komandi tímabil verður klárlega mikil áskorun en við erum með góða blöndu af ungum leikmönnum sem koma inn í hóp heimastráka sem hafa meiri reynslu.“

Viðtal: BRV

Nýjar fréttir