0 C
Selfoss

Áætlað að Herjólfur sigli fyrir rafmagni í lok árs

Vinsælast

Í frétt frá Vegagerðinni kemur fram að stefnt sé að því að Herjólfur IV hefji siglingar á rafmagni eingöngu í lok árs. Eins og fram hefur komið var ferjan smíðuð með það í huga að vera sambland af dísel- og raforku sem þýddi umtalsverðan sparnað í olíukostnaði. jafnframt var gert ráð fyrir rými fyrir fleiri rafgeyma þannig að hægt væri að keyra ferjuna eingöngu á rafmagni. Í byggingarferlinu var svo afráðið að hefja rafvæðinguna strax í takt við aukna umhverfisvitund ásamt því að verð á rafgeymum lækkaði hratt sem gerði kostinn fýsilegri. Enn sem komið er er skipið knúið af dísilvélum einum, en verið er að prófa tvinnmöguleika vélanna. „Í framtíðinni verður þessi leið milli Eyja og Landeyjahafnar farin á raforkunni einni saman og olían hverfur alveg,“ segir Greipur en bendir þó á að einhverjir óvissuþættir spili þar inn í. Til dæmis veður og öldufar sem gætu orðið til þess að skipið eyði meira rafmagni en áætlað er og því þurfi að grípa til vélanna líka.

Rafhleðsluturnar í notkun í lok október eða byrjun nóvember

Hleðslutengi á Herjólfi. Mynd: Vegagerðin.

Settir verða upp tveir hleðsluturnar, annar í Landeyjahöfn og hinn í Vestmannaeyjum. Turnarnir verða settir upp í næstu viku, 26. til 30. ágúst og síðan taka við ýmis tæknileg mál sem líklega verður lokið í kringum 15. október. „Þá fara fram prófanir á kerfinu. Skipstjórarnir þurfa að æfa sig að tengja og aftengja. Líklega verður lausnin tilbúin til notkunar um mánaðamótin október, nóvember,“ upplýsir Greipur.

Þegar allt er tilbúið er reiknað með að ferjan verði tengd rafmagni í hálftíma í hvorri höfn milli ferða. Sú innspýting á kerfið á að duga til að sigla á rafmagni einu saman milli lands og eyja.

Lætur vel að stjórn

Ekkert stýri er á nýja Herjólfi en rafmagnsferjur eru yfir höfuð ekki með stýri heldur svokölluð hældrif sem knúin eru rafmagnsmótorum. Greipur segir kosti hældrifsins marga. „Stýrið veldur núningi sem verður til þess að draga úr hraða skipsins þegar því er stýrt, hældrifin eru hins vegar alltaf í gangi og enginn núningur myndast við stjórnun skipsins. Þess vegna missir skipið ekki hraða þó því sé beygt eða siglt til hliðar. Hældrifin ýta skipinu áfram og geta snúist 360 gráður. Ganghraðinn er ekki fastur og auðveldara er að tímasetja komur til hafnar með hraðastýringu og hægt að sigla mjög hægt.“

Greinina má nálgast í heild sinni á vef Vegagerðarinnar hér.

Nýjar fréttir