4.5 C
Selfoss
Home Fréttir Liðsheild og stórt Selfosshjarta skópu sigurinn

Liðsheild og stórt Selfosshjarta skópu sigurinn

0
Liðsheild og stórt Selfosshjarta skópu sigurinn
Anna María fagnar bikarmeistaratitlinum 2019. Mynd: Fótbolti.net/Hafliði Breiðfjörð.

Anna María Friðgeirsdóttir er fyrirliðið kvennaliðs Selfoss í fótbolta sem vann Mjólkurbikarinn á Laugardalsvelli sl. laugardag. Liðið bar þar sigurorð af KR 2:1 í framlengdum leik. Þetta er fyrsti stóri titillinn sem knattspyrnulið frá Selfossi vinnur.

„Það var skrítin tilfinning að sjá bikarinn inn í klefa upp á velli í dag (sunnudag eftir bikarleik) og það var kannski þá sem maður áttaði sig fyllilega á því að við tókum bikarinn með okkur heim. Annar flokkurinn var að keppa og við mættum og horfðum á þær keppa um leið og við sóttum dótið okkar. Þegar við sáum hann þarna inn í klefa var þetta orðið raunverulegt. Allt í kringum leikinn og eftir leik var ævintýri líkast. Þetta er svolítið í móðu ennþá,“ segir Anna María, fyrirliði Selfoss, í viðtali við Dagskrána.

Hvernig var að taka við bikarnum?
„Það að fá að lyfta bikarnum og vinna fyrsta stóra fótboltatitil Selfyssinga eru þvílík forréttindi og alveg geggjað. Þetta hefur aldrei gerst áður. Við höfum tvisvar sinnum áður reynt við bikarinn en náðum ekki að vinna hann. Okkur tókst það í þriðja skipti. Þetta er stærsti knattspyrnutitill sem lið frá Selfossi hefur nokkurn tíma unnið. Það er bara þannig.“

Hvernig var að koma með bikarinn yfir brúna?
„Það var rosalega skemmtilegt. Við fengum lögreglufylgd yfir brúna. Svo var rútan stoppuð í hringtorginu og öll umferð stoppuð á meðan við gegnum út á torgið. Allir Selfyssingar voru hvort sem er á torginu. Það var geggjað að fá að fagna með fólkinu sínu. Stuðningsmennirnir voru frábærir og stuðningurinn sem við fengum í leiknum var óborganlegur. Það voru hátt í 2.000 manns sem mættu á völlinn en samt ekki jafnmargir og mættu á metleikinn 2015 þegar við lékum við Stjörnuna (2.435). Það mættu mjög margir Selfyssingar í stúkuna og létu vel í sér heyra. Stuðningurinn úr stúkunni skipti okkur gríðarlega miklu máli, sérstaklega þegar leikurinn fór í framlengingu. Þá leitaði maður í orkuna í stúkunni og það var endalaus orka þar. Það hjálpaði okkur til að klára leikinn.“

Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði Selfoss. Mynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð.

Hvernig var undirbúningi fyrir leikinn háttað?
„Við ákváðum öll í sameiningu að við ætluðum að undirbúa okkur nákvæmlega eins og við höfum gert fyrir hvern leik í sumar. Við náðum alveg að halda því. Ég held að það hafi ekki verið neitt sem var gert eitthvað öðruvísi. Síðan að stíga inn á þjóðarleikvanginn þar sem þjóðsöngurinn var spilaður með fulla stúku af Selfyssingum gerði þetta að miklu stærri leik heldur en við höfum verið að spila. Eðlilega var stress í leikmönnum og ekki síst hjá þeim sem voru að gera þetta í fyrsta skipti. Við hristum það af okkur þegar við fengum á okkur þetta mark. Þá var bara „geimfeisið“ sett á og við þurftum að fara að sækja.“

Hvernig karakter er í Selfossliðinu?
„Liðsheildin sem við höfum búið til er einstök og maður heyrir það á leikmönnum sem eru að koma inn í liðið að þeir hafa aldrei fundið svona áður, bæði stemningin í liðinu og stemningin í samfélaginu. Og stuðningurinn sem við fáum alls staðar. Við einhvern veginn erum tilbúnar að gera allt fyrir hver aðra, klúbbinn, stuðningsmennina og samfélagið. Þetta er svo miklu stærra en bara þessar ellefu sem eru að spila. Það verður til stórt Selfosshjarta.“

Hvaða áhrif hefur þessi bikarmeistaratitill á fótboltann á Selfossi?
„Ég vona að hann hafi mikil og jákvæð áhrif, ekki bara á fótboltann heldur íþróttalífið allt á Selfossi. Mér finnst Selfoss vera fullkominn íþróttabær. Við höfum alla burði til að vera með frábær lið í öllum greinum og í einstaklingsíþróttum líka. Við erum með frábært æfingasvæði hérna. Það hefur verið smá synd að titlaskápurinn hefur verið tómur hingað til. Það hafa komið tveir stórir titlar á Selfoss í ár (bikarmeistaratitillinn og Íslandsmeistaratitillinn í handbolta) og vonandi er það bara byrjunin á einhverju miklu stærra.“

Meistaraflokkur kvenna í fótbolta var endurvakinn á Selfossi 2009. Anna María tók þátt í því og hefur verið í þessu síðan. „Ég missti reyndar af fyrstu leikjunum þá þar sem ég var að stíga upp úr meiðslum en síðan þá hef ég spilað flesta leiki. Þeir eru orðnir tvö hundruð og eitthvað fyrir Selfoss í öllum keppnum. Við erum með ákveðinn kjarna heimastelpna sem hafa komið inn og svo hafa verið erlendir leikmenn líka. Núna erum við með fjóra erlenda leikmenn sem hafa hjálpað okkur gríðarlega mikið. Við byggjum liðið aðallega upp á heimastelpum og stelpum héðan af svæðinu. Það skiptir liðið gríðarlega miklu máli því við erum tilbúnar að berjast extra mikið fyrir samfélagið okkar. Þetta er okkar uppeldisfélag og það sýnir sig oft á vellinum að við spilum með stórt Selfosshjarta.“

Hvaða máli skiptir umgjörðin í kringum liðið?
„Við erum með ómetanlegt lið í kringum okkur. Mörg lið eru heppin að hafa einn liðsstjóra en við erum með þrjá þ.e. Hafdísi, Svandísi og Maríu. Þær þrjár eru tilbúnar að gera allt fyrir okkur. Svo erum við með Stefán Magna sjúkraþjálfara sem er hægt að hringja í allan sólarhringinn ef hann er á landinu. Emil Karel hefur líka verið að hjálpa okkur mikið í sumar. Svo eru þjálfararnir Alli og Óttar náttúrulega og Elli markmannsþjálfari. Svo er Jón Karl, okkar mikilvægasti maður. Hann keyrir okkur í alla leiki og tekur upp alla leiki. Hann er maðurinn á bak við tjöldin. Hann er pabbi okkar allra,“ segir Anna María að lokum.

(Anna María 2)

Anna María fagnar bikarmeistaratitlinum 2019. Fótbolti.net/Hafliði Breiðfjörð.

(Bikarleikurinn 1)

Selfoss stelpur fagna jöfnunarmarki Hólmfríðar Magnúsdóttur. Fótbolti.net/Hafliði Breiðfjörð.