2.3 C
Selfoss

Hera er komin heim

Vinsælast

Fullt var út úr dyrum á tónleikum Heru Hjartardóttur í Skyrgerðinni í Hveragerði 18. júlí síðastliðinn. Hera söng sig beint inn í hjarta viðstaddra, eins og hún hefur gert gegnum árin með bjartri og tærri rödd, einlægni og húmor. Hún vinnur nú að nýrri plötu ásamt einvalaliði tónlistarmanna undir stjórn Barða Jóhannssonar. Þeir sem komu í Skyrgerðina fengu forsmekkinn af þeirri plötu auk eldri laga, þau elstu frá því söngkonan var 15 ára. Íslenka stelpan frá Nýja Sjálandi fékk að flæða um salinn, hún sagði fá sjálfri sér á tungumálunum sínum tveimur og seiddi þannig fram heimana tvo sem mætast í henni. Útkoman var ferðalag um landið okkar og löndin hennar, þar sem Hera var skipstjórinn og stýrði með gítarnum sem virkar eins og eðlileg framlenging á líkama hennar og listinni.

Dagskráin var síbreytileg, fljótandi en fyrst og fremst heimilisleg. Tilfinningin fyrir því að vera boðin velkomin heim í stofu stafaði ekki bara af því að móðir Heru tók á móti gestum í dyrunum. Óskalög úr sal voru samstundis glædd lífi á sviðinu en þar spruttu líka fram gamlir vinir á borð við Davíð Stefánsson, Vatnsenda Rósu og elsku Bubba. Hera er komin heim og við fengum að bjóða hana velkomna, og hún okkur. Það var engin tilviljun að stefið í lokalaginu virkar bæði á íslensku og ensku, „Come in – Kom inn“. HRK

Nýjar fréttir