6.1 C
Selfoss

BYKO tekur ákveðin skref í umhverfismálum

Vinsælast

Í byrjun júní var rafhleðslustöð tekin í notkun við verslun BYKO á Selfossi. Að sögn Gunnars Bjarka Rúnarssonar verslunarstjóra er þetta eitt af fyrstu skrefunum í að fylgja umhverfisstefnu BYKO eftir. Stöðin var sett upp í samvinnu við ON.

„Það geta allir komið hérna við og hlaðið bílana sína, þ.e. þeir sem eru með ON lykla. Þetta er annars vegar þessi venjulega rafhleðslustöð og hins vegar hleðslustöð sem tekur lengri tíma að hlaða,“ segir Gunnar Bjarki. „Í tengslum við þetta má nefna að stefna fyrirtækisins er að það verði eingöngu rafmagnsbílar hjá BYKO á næstu fimm árum.“

Starfsmenn fá samgöngustyrk
BYKO veitir starfsmönnum sínum samgöngustyrk ef þeir ferðast á umhverfisvænan hátt í og úr vinnu. Það gildir ef þeir hjóla, ganga, ferðast saman eða nota almenningssamgöngur. „Ef starfsmenn eiga rafmagnsbíl þá fá þeir fría hleðslu hér,“ segir Gunnar Bjarki. Sérstök hjólageymsla hefur verið sett upp fyrir starfsmenn fyrirtækisins þar sem þeir geta geymt hjól sína og haft fataskipti.

Allt rusl sem fer frá BYKO á Selfossi er flokkað. Mynd: ÖG.

Umhverfisvænar umbúðir og flokkun
„Það nýjasta sem við erum að gera í umhverfismálum tengist plastpokunum. Við erum búnir að henda þeim út og taka í staðinn bréfpoka sem koma í staðinn. Það var mjög stórt skref. Við erum einnig að reyna að fá alla birgja, sem senda okkur vörur alls staðar úr heiminum, til að nota meiri pappa en plast í umbúðir. Undanfarin tvö ár höfum við verið að reyna að flokka rusl en tókum núna skrefið til fulls. Við flokkum allt sem fer frá okkur. Það er t.d. plastið, timbrið og pappinn sem fer allt saman flokkað héðan frá okkur. Við erum að henda 5-8 tonnum af flokkuðu rusli á mánuði. Timbrið og pappinn fer í endurvinslu og plastið eins og annað plast hér á landi.“

Gunnar Bjarki segir að BYKO leggi mikla áherslu á að starfsmenn séu meðvitaðir um umhverfisvottanir. „Við erum með þó nokkuð af svansvottuðum vörum og erum í samstarfi við fyrirtæki sem eru að votta vörur.“

Nýjar fréttir