0.4 C
Selfoss
Home Fréttir Mánudagsfiskur í sparibúningi

Mánudagsfiskur í sparibúningi

0
Mánudagsfiskur í sparibúningi
Stefán Pétursson.

Matgæðingur vikunnar er Stefán Pétursson. Ég vil byrja á að þakka Þóri vini mínum fyrir þennan bjarnargreiða. Forfeður okkar voru miklir matgæðingar og kunnu þá list besta að lifa af landsins gæðum og nýta það sem náttúran lagði til.

Ég ætla ekki að bjóða upp á þá matargerð að þessu sinni, heldur býð ég ykkur að prófa það sem ég kalla mánudagsfisk í sparibúningi. Í þennan rétt þarf eftirfarandi:

Þorskhnakkar (fyrir 3-4)
800 g þorskhnakkar, roð- og beinlausir.
Olía, smjör, salt og pipar
4 dl mjólk
4 dl hveiti

Skerið þorskhnakka í jafn stóra bita, setjið hvern bita ofan í mjólkina og því næst ofan í skál með hveiti, salti og pipar.
Hitið olíu á pönnu og steikið fiskinn í nokkrar mínútur á hvorri hlið (ég myndi segja ca. 3 mínútur).Það er mjög mikilvægt að pannan sé mjög heit þegar fiskurinn fer á en annars verður hjúpurinn ekki nógu stökkur.
Bætið smjöri út á pönnuna í lokin og hellið vel yfir fiskinn, það er nauðsynlegt að hafa nóg af smjöri.

Blómkálsmauk
1 stórt  blómkálshöfuð
2 msk. smjör
1 dl rjómi
Salt og pipar

Skerið blómkálið í bita og sjóðið í söltu vatni þar til blómkálið er orðið mjúkt. Hellið soðvatninu af og setjið blómkálið í matvinnsluvél eða maukið með töfrasprota, bætið smjöri  við og rjóma eftir smekk (magnið fer eftir því hversu þykkt maukið á að vera). Kryddið til með salti og pipar.

Lauksmjör
Smjör
1 laukur

Afhýðið laukinn og skerið í þunnar sneiðar, setjið í pott ásamt smá smjöri og steikið þar til laukurinn er orðinn mjúkur í gegn. Þá bætið þið enn meira smjöri saman við sem þið hellið síðan yfir fiskinn þegar hann er klár.
Ég flysja gulrætur, sker í tvennt og sýð í söltu vatni ásamt ferskum aspas í nokkrar mínútur. Það passar fullkomlega með þessum fiskrétti.

Það er svo tilvalið að fá sér eitthvað sætt eftir þessa dásemd og læt ég fylgja með uppskrift af fullkominni súkkulaðimús.

Súkkulaðimús
30 g smjör
220 g súkkulaði t.d. suðusúkkulaði
260 ml rjómi
3 egg
2 msk. sykur
1 tsk. vanilluextrakt (eða vanillusykur)

Bræðið smjör og súkkulaði við vægan hita í potti.
Hellið súkkulaðiblöndunni í skál og blandið þremur eggjarauðum saman við. Kælið blönduna.
Þeytið rjóma og bætið að því loknu súkkulaðiblöndunni saman við í þremur hlutum. Leggið blönduna.
Stífþeytið eggjahvíturnar og bætið sykrinum smátt og smátt saman við.
Hrærið eggjahvítublönduna mjög varlega saman við súkkulaðiblönduna með sleikju, hrærið vanillu út í að lokum.
Skiptið súkkulaðimúsinni niður í  falleg glös eða skálar og geymið í kæli í lágmark 3 klukkustundir áður en þið berið hana fram.

Að lokum vil ég skora á kæran félaga minn, Helga Jóhannsson, en Helgi er mikill matgæðingur.

Verði ykkur að góðu.