-3.9 C
Selfoss

Bæjarráð Hveragerðis sendi frá sér ályktun vegna LBHÍ

Vinsælast

Bæjarráð Hveragerðis samþykkti samhljóða á fundi sínum 20. júní sl. eftirfarandi ályktun og fól bæjarstjóra að koma henni á framfæri við fulltrúa í háskólaráði LBHÍ, þingmenn kjördæmisins, önnur sveitarfélög á svæðinu og stjórn SASS:

„Heyrst hefur að ný stefna um starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands hafi verið kynnt nýverið á fundi sem haldinn var á Hvanneyri en þar eru lagðar til breytingar á inntaki og eðli garðyrkjunáms við skólann.

Garðyrkjudeild Landbúnaðarháskóla Íslands er staðsett í túnfæti Hveragerðisbæjar. Starfsemi LBHÍ í samfélaginu hér fyrir austan fjall er mjög mikilvæg auk þess sem garðyrkja hefur verið drifkraftur í atvinnulífi Hveragerðisbæjar frá upphafi byggðar hér í bæ. Allar breytingar á eðli náms við garðyrkjudeild LBHÍ skipta því miklu máli.

Á Reykjum hafa nemendur sótt gott og fjölbreytt starfsnám sem bæði hefur nýst til áframhaldandi náms en einnig sem framúrskarandi grunnur fyrir störf á vettvangi garðyrkjunnar.

Við viljum hvetja fulltrúa í Háskólaráði LBHÍ til að standa vörð um það mikilvæga nám sem fram fer á Reykjum og í samvinnu við alla hagaðila, þar með talin sveitarfélögin á svæðinu, leita allra leiða til að efla það enn frekar með það að leiðarljósi að garðyrkja í sinni fjölbreyttustu mynd fái sem best dafnað á Íslandi.

Í ljósi þessa er hér með óskað eftir því að engar ákvarðanir um nýja stefnu verði teknar nema með víðtæku samráði við alla hagaðila og að undangengnu ítarlegu mati á þeim áhrifum sem slíkar breytingar gætu mögulega haft á námið og aðgengi nemenda að því.

Okkur er kunnugt um að sveitarstjóri Borgarbyggðar hafi verið boðaður á umræddan kynningarfund. Þykir okkur mjög miður að hvorki fulltrúar Ölfuss né Hveragerðisbæjar hafi fengið boð á fundinn þrátt fyrir að hagsmunir þessara tveggja sveitarfélaga séu jafn ríkir í þessu máli og Borgarbyggðar.

Bæjarráð fyrir hönd allra bæjarfulltrúa Hveragerðisbæjar lýsa yfir fullum vilja til að koma að samráði um framtiðarsýn garðyrkjudeildar LBHÍ og telja að með víðtæku samráði sé hagsmunum garðyrkjunnar best borgið.“

Nýjar fréttir