8.9 C
Selfoss

Fella- og fjallgönguverkefnið „Sveitin mín“ í Bláskógabyggð

Vinsælast

Fimm póstkassar með gestabækur hafa verið settir upp á áhugaverða staði, fell eða fjöll í Bláskógabyggð. Er þetta hluti af fella- og fjallaverkefninu Sveitin mín sem tengist verkefninu Heilsueflandi samfélag í Bláskógabyggð.

Í þessum göngum ættu allir að geta fundið sinn Everest…. og kannski fleiri en einn. Minnsta hækkunin er 10 metrar en sú mesta er 600 metrar. Verkefnið er þannig uppbyggt að þrjár leiðanna eru fjölskylduvænar og nokkuð léttar og síðan tvær sem eru erfiðari. Nánari upplýsingar um verkefnið og leiðirnar má finna á heimasíðu Bláskógabyggðar. Þar er ennfremur skorað á íbúa og aðra sem hafa áhuga að taka þátt og skrifa í sem flestar gestabækur. Póstkassarnir verða uppi til 30. september.

Álfakirkja við Laugarvatnsvelli (600 m, 30 m hækkun)
Ekið er inn malarbraut sem liggur austan við Laugarvatnsvelli, og liggur hann að malarnámu. Þaðan er aðeins um 600 m í Álfakirkjuna. Létt ganga. Póstkassinn er við Álfakirkjuna. Fyrir þá sem vilja meira þá er 1,9 km á Þverfellið (rauð leið, 200 m hækkun).
Suður af Þverfelli er melhryggur sem heitir Rani. Hæsti kletturinn þar heitir Álfakirkja. Þar heyrðist oft messað til forna og söngur mikill.

Ármannsfell við Þingvelli (gul leið: 4.5 km, 600 m hækkun)
Rétt við þjónustumiðstöðina á Þingvöllum er keyrt til norðurs, eftir Uxahryggarvegi og bílnum lagt við Skógarhóla.
Um tvær leiðir er að velja. Rauða leiðin um Fjárhúsmúla er brattari. Sú græna er meira aflíðandi en með tveimur stöllum. Toppurinn er 1,8 km inn á fjallinu. (600 m hækkun).
Sagnir herma að í Ármannsfelli hafi búið þurs nokkur er Ármann hét, sem m.a. hafi haft það að starfi að skipuleggja kappglímur milli kynbræðra sinna og blendinga á Hofmannaflöt undir Meyjarsæti. Hofmannaflöt er norðaustan við Ármannsfell.

Kórinn við Bláfellsháls (1,4 km, 10 m hækkun)
Ekið er inn að Bláfellshálsi og rétt eftir að keyrt er yfir Grjótá þá er gott að leggja bílnum, t.d. við afleggjarann að Fremstaveri. Gengið er í norðurátt, upp með árfarveginum. Þar er nokkuð stórgrýtt, en þægilegri leið er að ganga austan við farveginn. Póstkassinn er við syðri „innganginn“ í Kórinn. Á leiðinni til baka má koma við í gömlu leitarmannaskýli sem er vestan við Kórinn (græn leið).
Kórinn er jarðfræðilega mjög fallegur staður, sem að sumu leiti líkist Ásbyrgi fyrir norðan. Hann myndaðist undir lok ísaldarinnar fyrir 10 þúsund árum þegar leysingavatn flæddi niður hálsinn. Leitarmannaskýlið er í gili rétt sunnan við Hellisgil, og er hellir með steinhleðslu fyrir framan. Þar var pláss fyrir 150 kindur og smala. Í honum var gist í fjallleitum þegar afréttur var inn að Hvítá.

Vörðufell (1,8 km, 290 m hækkun)
Um 250 m sunnan við afleggarann að Iðu er ekið inn á gamlan malarveg. Þar er bílastæði. Farið er um hlið og yfir girðingu á prílu, og gengið suðvestur upp Gildruskarðið.
Gengið er norðaustur frá vörðunni sem er efst í skarðinu og er póstkassinn staðsettur við aðra vörðu á norðaustur horni fellsins. Þar er fallegt útsýni yfir Laugarás og uppsveitirnar.

Svartagil í Haukadal (900 m, 50 m hækkun)
Ekið er inn í Haukadal og bílnum lagt á aðalbílastæði svæðisins. Gengið er á brú yfir Kaldalæk og eftir stígnum (blár á korti) upp að salernisaðstöðu (700 m). Þar eftir er gengið yfir Laugá og upp eftir Svartagili (appelsínugul leið á korti, gestabók). Fyrir þá sem vilja meira: Skotmannsvörður ( 1,8 km, 210 m).
Við stíginn í Svartagili eru upplýsingaskilti um hinar ýmsu trjátegundir. Mjög falleg leið og nokkuð einföld nema að því leyti að ef gengið er ofan í gilinu þá er 1 stutt en brött moldarbrekka. Ath. stígurinn að Skotmannsvörðum eru í beinu framhaldi af appelsínugulu leiðinni.

Sjá nánar á heimasíðu Bláskógabyggðar blaskogabyggd.is

Nýjar fréttir