-0.5 C
Selfoss

Af málefnum Árborgar

Vinsælast

Nú þegar rúmt ár er liðið frá síðustu sveitarstjórnarkosningum finnst okkur rétt að staldra við og fara í nokkrum orðum yfir þau verkefni sem bæjarstjórn hefur verið að fást við.  Svf. Árborg hefur verið í miklum vexti að undanförnu og ekkert sem bendir til annars enn að sú þróun haldi áfram. Fjölgun íbúa er umtalsvert yfir landsmeðaltali og er það ánægjuefni og um leið áskorun á bæjaryfirvöld að taka vel á móti nýjum íbúum og huga vel að þeim sem fyrir eru .Fljótlega eftir kosningar síðasta vor var ákveðið að fá hagfræðinginn Harald Líndal Haraldsson til að gera úttekt á stjórnsýslu, rekstri og fjármálum sveitarfélagsins. Lokaskýrsla Haraldar var  kynnt bæjarfulltrúum og starfsmönnum sveitarfélagsins um áramót.  Í framhaldi af því var farið í að innleiða nýtt skipurit fyrir sveitarfélagið og starfsmönnum falið að hefja vinnu í samræmi við þær ábendingar sem komu fram í skýrslunni.  Við innleiðingu nýja skipuritsins urðu ákveðnar breytingar á starfsmannamálum,  tilfærslur á störfum og ný störf urðu til. Einstaka stjórnendur ákváðu á þeim tímapunkti, að segja störfum sínum lausum og hverfa til annarra starfa og þökkum við þeim  góð og óeigingjörn störf fyrir sveitarfélagið undanfarin ár um leið og við bjóðum nýtt starfsfólk velkomið til starfa.

Umhverfismál

Við þessar breytingar á skipuritinu var m.a bætt við nýrri fagnefnd hjá sveitarfélaginu, sem er Umhverfisnefnd. Umhverfismálin eru sífellt að verða stærri  þáttur í lífi okkar og daglegum störfum.  Á þessu ári var byrjað á að safna lífrænu sorpi í sveitarfélaginu og  þriðja tunnan innleidd. Það þarf ekki að efast um það, hvað það skiptir miklu máli að allir taki með jákvæðum hætti þátt í aukinni flokkun úrgangs. Ljóst er að urðunarkostnaður fer sífellt hækkandi og þar með sorphirðugjöldin okkar íbúana sem eiga að endurspegla kostnaðinn við sorphirðuna.  Einnig hefur áhugi aukist að undanförnu á að skoða  möguleika með að koma upp grenndarstöðvum,með það að markmiði að auðvelda íbúum að flokka enn meira og losa sig við ákveðna sorpflokka þegar þeim hentar best.  Opnunartími gámasvæðisins við Víkurheiði hefur verið lengdur  og reynslan af því, sem af er verið góð, og ánægja meðal íbúa og fyrirtækja með aukið þjónustustig. Hreinsunarátak um allt Suðurland er á fullri ferð  í samstarfi við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, tilgangurinn er að hreinsa til á lóðum og lendum þar sem mikil ruslasöfnun hefur átt sér stað m.a vegna númerslausra bíla,ónýtra kerra og öðru drasli, sem ekki er til annars en skemma fallega ásýnd og vellíðan íbúa sveitarfélagsins. Nú fer að styttast í endanlega niðurstöðu í hönnun miðbæjargarðsins á Selfossi og verður sú vinna kynnt fyrir íbúum á næstunni.

Framkvæmdir og skipulag

Af nógu er að taka þegar kemur að framkvæmdum og skipulagsmálum í sveitarfélaginu.  Nýlega var ákveðið að fara í að endurskoða aðalskipulag  sveitarfélagsins, sem væntanlega mun taka um tvö ár í vinnslu.  Það er mjög mikilvægt að það verði unnið í góðu samstarfi við íbúa og hagsmunaaðila. Svf.Árborg á heilmikið land í Flóahreppi sem þarf að taka afstöðu til hvernig verður skipulagt til framtíðar, einnig óbyggt land við ný gatnamót Biskupstungnabrautar, sem verður mun áhugaverðara þegar nýr vegur og brú kemur yfir Ölfusá.  Á því landsvæði verður sveitarfélagið að vera með sínar áherslur um uppbyggingu og framtíðarsýn ljósar sem fyrst, ekki síst  vegna þess að fjársterkir aðilar hafa sýnt áhuga á framkvæmdum á svæðinu. Byggingaland undir íbúðarhúsnæði fer minnkandi og er allt kapp lagt á að koma hinu svokallaða Björkurstykki af stað sem fyrst, en það hefur tafist vegna ákveðinna skipulagsmála.  Verið er að gera breytingar á deiliskipulagi á Stokkseyri og Eyrarbakka og skipuleggja nýjar byggingalóðir, en aukinn eftirspurn hefur verið eftir byggingarlóðum í þorpunum við ströndina. Einnig eiga einkaaðilar nokkuð af byggingalandi við Selfoss, sem þeir hafa lýst yfir áhuga á að koma af stað sem fyrst, sú uppbygging sem þeir aðilar stefna á verður að sjálfsögðu unnin í  samstarfi við bæjaryfirvöld og samfélaginu til góða. S.l haust var gengið frá kaupum Héraðsnefndar Árnesinga á svokölluðum Alpanhúsum á Eyrarbakka undir starfsemi Byggðarsafns Árnesinga, og ekki er vafi á því þessi kaup styrkja og styðja við öflugt menningarstarf í Svf. og Árnessýslu allri, til  framtíðar. Langþráðar framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili á Selfossi eru að fara í gang við HSU en er það samstarfsverkefni ríkisins og sveitarfélagsins.

Í sumar verður lokið við að malbika fjörustíginn, milli Eyrarbakka og Stokkseyrar og einnig byrjað að malbika stíginn, meðfram Eyrarbakkavegi frá Selfossi. Sá göngustígur mun í framtíðinni tengja saman Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyri, sem frábær göngu-og hjólastígur, milli þéttbýliskjarna sveitarfélagsins.

Ljósleiðaravæðing sveitarfélagsins er áberandi þessa dagana en verið er að leggja hann í öll hús á Selfoss, sem ekki voru þegar kominn með hann.  Einnig er að hefjast ljósleiðaravæðing í dreifbýli sveitarfélagsins.  Mikið hefur verið þrýst á fjarskiptafyrirtækin að hefja sömu vinnu á Eyrarbakka og Stokkseyri og vonir standa til það fari í gang sem allra fyrst.

 Skóla- og velferðarmál

Mikið að fjölskyldufólki flytur í sveitarfélagið og því hefur þörfin fyrir aukið skólahúsnæði vaxið hratt, hvort heldur er leikskóla eða grunnskóla.  Undirbúningur að byggingu grunnskóla í Björkurstykki hefur verið í gangi og heldur áfram af fullum þunga.  Þarfagreiningu og hönnunarvinnu er lokið og önnur undirbúningsvinna í gangi.  Á meðan skólinn er ekki komin í gagnið hefur þurft að þrengja að nemendum Sunnulækjar og Vallarskóla, en þar  hefur verið bætt við útistofum tímabundið. Ástæða er til þess að þakka starfsfólki og foreldrum þolinmæðina á meðan þetta ástand varir.  Til að mæta fjölgun í leikskólunum var á síðasta ári boðin út viðbygging við leikskólann Álfheima.  Mikil vonbrigði voru hve há tilboð í þá framkvæmd bárust, eða rúmar 500 milljónir, en  reikna má með að nýr fullbúinn sex deilda leikskóli kostar c.a 700 milljónir.  Var sú ákvörðun tekin að fara ekki í þessa framkvæmd að  sinni en ákveðið í framhaldinu að fara í aðstöðusköpun við leikskólann Álfheima. Vegna þessa var tekin ákvörðun um að hefja byggingu nýs sex deilda leikskóla við Engjaland á Selfossi.  Sú vinna er hafin og vonast til að hægt verði að taka hann í notkun haustið 2020.  Á meðan þarf að bregðast við auknum biðlistum, sem m.a lengdust verulega þegar Reykjavíkurborg tók þá ákvörðun að segja upp öllum vistunarsamningum við foreldra sem ekki eiga lögheimili í Rvk.  En nokkur börn með lögheimili í Svf. Árborg hafa sótt leikskóla til Rvk.  Til að leysa þennan vanda er verið að undirbúa að setja lausar stofur við leikskóla sveitarfélagsins næsta vetur þar til nýr leikskóli verður tilbúinn.  Allt er þetta gert til að leitast við að fjölskyldum líði vel í sveitarfélaginu og þurfi ekki að hafa áhyggjur af velferð barna sinna.

Íþrótta- og æskulýðsmál

Íþrótta- og æskulýðsstarf er hverju samfélagi nauðsynlegt og hægt að fullyrða að það er með miklum blóma í okkar sveitarfélagi. Stór hluti barna-og unglinga stundar einhverskonar íþrótta-og æskulýðsstarf og  með því að bjóða uppá frístundastyrki fyrir 5-17 ára, fyrir skipulagt íþrótta-og tómstundastarf, reynir sveitarfélagið að styðja við þessa þátttöku en styrkurinn er á árinu 2019, kr. 35.000,- á hvert barn.  Mjög öflugt starf er í þessum málaflokkum í sveitarfélaginu og ánægjuefni  að allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.  Íþróttir skipa stóran sess í sveitarfélaginu okkar og má vel sjá það með því að við eigum afreksfólk hvert sem litið er í fjölmörgum íþróttagreinum. Aðkoma sveitarfélagsins að uppbyggingu íþróttamannvirkja er með margvíslegum hætti. Metnaðarfullar hugmyndir um framtíðaruppbyggingu íþróttamannvirkja við Engjaveg hefur verið lögð fram og kynnt og ákveðið að byrja á byggingu fjölnota húss, þar sem fyrsti áfangi verður hálft hús með aðstöðu fyrir knattspyrnu og frjálsar íþróttir. Kraftmikil uppbygging hefur átt sér stað hjá GOS og stefna kylfingar  á 18 holu golfvöll við Svarfhól og vegna væntanlegrar brúar er vinna hafin við færslu vallarins og stefnt á að halda  áfram með hann upp með Ölfusá. Hestamannafélagið Sleipnir hefur unnið þrekvirki við uppbyggingu á Brávöllum, reiðhöll og keppnisaðstaða með því besta sem gerist á landinu og hefur gjörbreytt aðstöðu og tækifærum barna-og unglinga til að stunda hestamennsku.  Verið er að undirbúa vinnu við þarfagreiningu og hönnun á betri íþróttaaðstöðu á Stokkseyri, þar sem mikið uppbyggingarstarf hefur verið unnið á undanförnum árum.

Á dögunum var skrifað undir samning við landlæknisembættið um heilsueflandi samfélag, en helstu markmið Heilsueflandi samfélags, er að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðari lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Verður spennandi að sjá hvernig það þróast hjá þeim hópi sem tekið hefur að sér að stýra verkefninu.

Íbúarnir eru sveitarfélagið

Sveitarfélagið Árborg er eitt af þeim sveitarfélögum á Íslandi sem í dag er í hvað mestum vexti og fólksfjölgun langt yfir landsmeðaltal ár eftir ár. Að reka sveitarfélag við þessar aðstæður er mikil áskorun og skemmtileg.  Þrátt fyrir auknar tekjur með mikilli fólksfjölgun duga þær tekjur ekki fyrir þeim framkvæmdum sem nauðsynlega þarf að ráðast í til þess að halda uppi öflugu þjónustustigi.  Því er mjög mikilvægt að horfa vel í fjármálin og forgangsraða með tilliti til þjónustu við íbúana og grunnþarfir þeirra.  Tekjur sveitarfélagsins koma að stærstum hluta frá íbúunum í formi útsvars og fasteignagjalda.  Með hækkandi fasteignamati er hægt að auka tekjur sveitarfélagsins verulega með því að leggja ár eftir ár áfram á sömu prósentu fasteignaskatts, vatnsgjalds, fráveitu ofl. Meirihluti bæjarstjórnar tók þá ákvörðun sl. haust að gera það ekki fyrir árið 2019, og milda þessa hækkun með því að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda. Mikil vinna er framundan við að greina kostnað sveitarfélagsins til að ná fram enn frekari hagræðingu til að bæta reksturinn svo hægt verði að lækka álögur á íbúa og fyrirtæki.

Sveitarfélag er ekkert annað en íbúar þess, samkv. lögum og stjórnendur sem kosnir eru til að gæta hagsmuna þeirra og reka sveitarfélagið af skynsemi og með ábyrgð að leiðarljósi.

Helgi Sigurður Haraldsson forseti bæjarstjórnar Svf. Árborgar.

Eggert Valur Guðmundsson formaður bæjarráðs Svf. Árborgar.

 

 

 

 

 

 

Nýjar fréttir