5 C
Selfoss
Home Fréttir Alþjóðaflugvöllur í Árborg og umhverfismál

Alþjóðaflugvöllur í Árborg og umhverfismál

0
Alþjóðaflugvöllur í Árborg og umhverfismál
Tómas Grétar Gunnarsson.

Hugmyndir um alþjóðaflugvöll í votlendinu milli Selfoss og Stokkseyrar virðast vera til skoðunar af fullri alvöru ef marka má viðtöl og fréttir í fjölmiðlum.

Ekki þarf að fjölyrða um eðli og áhrif loftslagsbreytinga og þau hallæri sem geta verið í vændum af þeim sökum. Loftslagsbreytingar eru teknar alvarlega af almenningi og ábyrgum stjórnvöldum. Sveitarfélög eru þar í lykilhlutverki því þau hafa skipulagsvaldið. Flug losar mikið af gróðurhúsalofttegundum og við óbreytta tækni þarf að fækka flugferðum, ekki fjölga.

Alþjóðaflugvellir eru mikil mannvirki með langar brautir og stór flughlöð. Í Flóanum er viðamikið votlendi og djúpur votlendisjarðvegur. Til að byggja alþjóðaflugvöll í mýrinni milli Selfoss og Stokkseyrar þarf væntanlega gríðarmikil jarðvegsskipti þar sem votlendisjarðvegi (sem geymir kolefnið sem ekki má losna) verður skipt út fyrir grjót og steypu. Þá er afrennsli af alþjóðaflugvöllum yfirleitt mengað vegna eldsneytis, afísingarefna, hreinsiefna og fleiri efna sem notuð eru á flugvöllum. Mengað afrennsli spillir jarðvegi, yfirborðsvatni og grunnvatni. Alþjóðaflugvöllum fylgja einnig hávaði og loftmengun ef þeir eru vel nýttir. Spyrja má hvers konar nágranni alþjóðaflugvöllur yrði fyrir byggð og landbúnað.

Láglendi Suðurlands er á nýrri skrá Náttúrufræðistofnunar Íslands yfir fuglasvæði sem hafa sérstakt mikilvægi enda einstakt á heimsvísu. Fyrirhugað flugvallarsvæði er sérlega mikilvægt fyrir fugla og fleiri lífverur vegna fjölda tjarna og nálægðar við ströndina. Alþjóðaflugvöllur myndi setja þessa sérstöðu í hættu. Þá er mikið fuglavarp á nærliggjandi svæðum og mikil umferð fugla vor og haust sem myndi ógna flugöryggi.

Frá sjónarmiði náttúrunnar sem fer hnignandi á heimsvísu er vafasöm hugmynd að setja alþjóðaflugvöll í neðanverðan Flóann. Þau sveitarfélög sem sýna framsýni við að samræma landnotkun og náttúruvernd verða best búin undir framtíðina. Þetta sýnir reynsla frá þéttbýlli löndum þar sem vinsæl svæði til búsetu eru þar sem best er hefur tekist að varðveita náttúruna. Þar er fasteignaverð hærra og lífsgæði betri. Gott er að hafa í huga að land er ekki bara flatarmál. Land er hluti af kerfinu sem heldur okkur öllum á lífi, þar sem vatn, jarðvegur, andrúmsloftið og lífríki spila saman. Þetta kerfi er þegar í hættu eins og kemur vel fram í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um ástand náttúrunnar (https://bit.ly/2Jjc51D) og nýlegri viðvörun vísindamanna til mannkyns (https://bit.ly/2B3WAqq). Öll notkun á landi ætti að taka mið af þessum raunveruleika.

Tómas Grétar Gunnarsson, býr á Laugarvatni.