9.5 C
Selfoss
Home Fréttir Lífið er hestamennska

Lífið er hestamennska

0
Lífið er hestamennska
Svanhlidur nýútskrifuð úr FSu.

Svanhildur Guðbrandsdóttir dúxaði í Fjölbrautarskóla Suðurlands vorið 2019. Hún útskrifaðist af hestalínu og lífið snýst um hestamennsku. En bóklegt nám liggur líka vel fyrir henni og hún kom strax á óvart með því að nefna að stærðfræði væri létt grein.

Mér finnst stærðfræðin auðveldust, þar er bara eitt rétt svar. Íslenskan er flóknari þar má túlka sömu söguna á marga vegu. Ég var búin með tvo stærðfræðiáfanga í fjarnámi frá FÁ áður en ég lauk Kirkjubæjarskóla á Síðu. Mér gekk vel í stærðfræði og ég hafði góðan stærðfræðikennara sem benti mér á að ég gæti tekið framhaldsskólaáfanga í fjarnámi.

En hvað skiptir mestu máli til að ná góðum árangri í námi?

Samviskusemi, klára verkefni tímanlega og mæta í tímana. Ég reyni að mæta alltaf á réttum tíma, hef ekki húmor fyrir slugsi. Dagskráin er oft þétt og þá verður skipulagið að vera í lagi. Það er líka þannig að stundum má sleppa kennslustund ef maður er búinn að skila verkefni og þá get ég farið á hestbak í staðinn. Ég tók mjög fá lokapróf af því að það má sleppa lokaprófinu ef nemandi hefur skilað verkefnum og fengið háar einkunnir yfir alla önnina.

Svanhildur í einni af mörgum hestaferðum sínum (kvöldreiðtúr með Hestamannafélaginu Kópi).

Nú varst þú á hestabraut sem margir líta eflaust á sem góða leið til að sleppa við mikið bóklegt nám, en þú hefur lagt þig fram við hvort tveggja. Finnst þér bóknámið skipta miklu máli fyrir nema í verklegum greinum?

Bóklegt nám getur bætt verklega námið, sem verður þar af leiðandi faglegra. Ég lærði líka aga og að koma hlutunum í orð í bóklegu áföngunum sem að nýttist síðan í þá verklegu. Maður verður að skipuleggja námið vel. Bóklega námið á hestalínunni er mjög fjölbreytt. Við lærum ýmislegt um fóðrun, umhirðu og sjúkdóma í hrossum. Hestamennska er íþrótt og það var hluti af náminu að læra að leiðbeina öðrum. Við fengum að kenna litlum krökkum og grunnskólanemendum. Ég var með hross í þjálfun á Selfossi í vetur, bæði sem ég á og fyrir aðra. Ég er búin að kynnast mörgu skemmtilegu fólki í gegnum hestamennskuna á Selfossi. Það var nóg að gera og stundum var dagurinn langur en það er ekki svo mikið mál þegar maður er að gera það sem manni finnst skemmtilegast.

Svanhildur og Pittur frá Víðivöllum fremri sem hún hefur þjálfað síðustu ár.

Hvenær byrjaðir þú í hestamennsku?

Ég er fædd inn í hestamennsku. Foreldrar mínir, Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, reka tamningastöð á Syðri-Fljótum í Meðallandi í Skaftárhreppi og ég er alin upp við að lífið snýst um hesta. Ég man ekki eftir öðru en að vera með þeim í hestamennskunni. Ég fór í hestaferðir, var í hesthúsinu að hugsa um hestana, og fara á bak, frá því ég man eftir mér og svo fór ég líka fljótt að hjálpa til við að temja. Síðan varð mamma heimsmeistari í tölti 2015 á hesti sem við áttum og ég var aðstoðarmaður hennar á mótinu, þannig að ég er búin að afla mér töluverðar reynslu nú þegar. Þetta hefur verið mitt líf og ég get ekki hugsað mér að gera annað.

Áttu þér fyrirmynd í lífinu?

Er ekki klassískt að segja mömmu og pabba? Þau hafa alltaf stutt mig og hafa sama áhugamál. En svo finnur maður alltaf eitthvað í fari fólks sem er gott að læra. Maður sér einhvern sem er að gera það gott í hestamennskunni eða á öðrum sviðum. Ég held að það sé hægt að læra af öllum.

Hvað var erfiðast við að vera í Fjölbrautarskóla Suðurlands?

Ég þurfti að flytja að heiman, var kvíðin fyrst, án hestanna minna, vinanna og fjölskyldunnar. Ég var hins vegar mjög heppin og fékk að búa hjá frændfólki, sem að gerði allt auðveldara. Ég er ekki alveg týpan sem á auðvelt með breytingar og á sjaldnast fyrsta orðið þegar að ég hitti einhvern í fyrsta sinn. Katla Björg, frænka mín sem ég bjó hjá, var líka í FSU og hún hjálpaði mér mjög mikið þegar ég var að byrja. Hún var mér til halds og trausts í skólanum. Mér finnst að það ætti að vera meira samstarf á milli litlu skólanna til þess að krakkarnir í þeim skólum kannist hvert við annað t.d. milli Klausturs og Víkur. Félagslífið í FSu er skiljanlega litað af því hvaðan krakkarnir koma. Þau halda saman sem koma úr stóru skólunum á Suðurlandi því að þau þekkjast svo vel. Ég fór einu sinni með Víkurkrökkunum á reiðnámskeið þannig að ég kannaðist aðeins við þau. Það var betra en ekkert en það er ekki auðvelt að koma úr litlum skóla í stóran skóla eins og FSu. Það eru mikil viðbrigði. Þetta var ekkert alltaf auðvelt en þetta tókst!

Er nauðsynlegt að eiga hest og hafa verið í hestamennsku til að geta stundað nám á hestalínunni í FSu?

Nei, alls ekki. Þú getur verið byrjandi, skólinn skaffar hesta fyrstu tvö árin en á þriðja árinu koma nemendur sjálfir með hest. Nemendur fara líka í verknám 2x 6 vikur að sumri sem að gefur þeim aðeins víðara sjónarhorn. Freyja Hilmarsdóttir í Votmúla, var verknámskennarinn minn, en hún kennir líka reiðmennsku í FSu.

Og hvert liggur leiðin?

Ég er búin að sækja um og fara í inntökupróf fyrir hestafræðideildina á Hólum í Hjaltadal.

Þannig að draumurinn er nokkuð augljós!

Já, draumurinn er að stunda hestamennsku. Mig langar að geta verið í sveit, stunda tamningar og þjálfun og ná árangri í keppni. Ég hef unnið mikið við frumtamningar en ég á eftir að fá fleiri tækifæri sem keppnisknapi. En mér hefur gengið vel í því líka. Ég tók verklegt 5. og síðasta stig í knapamerkjum. Það er afar krefjandi fimiprógram sem reynir mikið á samspil manns og hest. Ég fékk 9,1 sem er mjög há einkunn og hefur ekki oft verið gefið hærra. Ég tók prófið á Pitti frá Víðivöllum fremri, sem ég hef þjálfað í bráðum fjögur ár. Það er frábært að ná svona góðum árangri og fá viðurkenningu fyrir vel unnið verk. Ég gerði þetta sjálf, með aðstoð foreldra minna og svo var ég með Pitt í skólanum á þriðja árinu.

Áttu þér mottó í lífinu?

Að vinna í lausnum en ekki vandamálum.

Að lokum vill Svanhildur þakka öllu því góða fólki sem hún kynntist á Selfossi sem gerði henni kleift að stunda námið í Fsu með hestana sína með sér.

Dagskráin óskar Svanhildi til hamingju með þennan glæsilega árangur og það er tilhlökkunarefni að fá að fylgjast með henni í hestamennskunni næstu árin.