10 C
Selfoss

100 ár frá því Gamli bankinn var reistur á Selfossi

Vinsælast

Gamli bankinn svokallaði sem stendur við Austurveg 21 á Selfossi á sér merka sögu sem lesa má í 1. bindi af Sögu Selfoss eftir Guðmund Kristinsson. Húsið var fyrst reist í Búðardal 1899 og stóð þar sem verslunarhús. Húsið kom tilhoggið frá Noregi hingað til lands. Landsbankinn hafði haustið 1918 fest kaup á húsinu. Fyrstu árin var Landsbankinn í Tryggvaskála en ljóst var að það yrði ekki til frambúðar. Úr því var ráðið að flytja húsið austur að Selfossi sumarið 1919 og reisa það upp.

Húsið tekið niður, spýtu fyrir spýtu, og flutt
Fenginn var til verksins kunnur byggingameistari og brúarsmiður, Einar Einarsson, en hann kom meðal annars að því að reisa Hótel Borg.

Einar sendi smið austur á Selfoss sem fékk fyrirmæli um að steypa kjallara sem húsið skyldi reist ofan á. Sjálfur fór Einar vestur til þess að rífa húsið. Einar gekk svo í öll herbergin og strikaði þau með mislitri krít. Við svo búið reif hann húsið og flutti sjóleiðina með mótorbát frá Búðardal til Eyrarbakka og þaðan upp á Selfoss. Einar var fljótur að setja húsið upp aftur eins og það var fyrir vestan. Sú breyting var gerð að setja nýjan inngang á það frá götunni, sem nú er inngangurinn í verslunina VAX. Húsið var tilbúið um miðjan september árið 1919 og útibú Landsbankans fluttist þá úr Tryggvaskála í nýtt húsnæði.

Ástandið á þessum árum erfitt
Ekki var einfalt mál að flytja heilt hús á þessum árum. Frostaveturinn mikli skók landið veturinn 1918. Katla gaus og viku seinna barst spænska veikin til landsins en talið er að hún hafi borist með skipinu Botníu frá Kaupmannahöfn og Willemoes frá Bandaríkjunum 19. október 1918. Nóvember það ár er talið að þriðjungur Reykvíkinga hafi legið sjúkur. Alls létust 484 úr spönsku veikinni og þar af 31 á Eyrarbakka og 16 í Árnessýslu.

Vert er að velta fyrir sér efnum og aðstæðum á þessum tíma þegar lagt var upp í þessa framkvæmd og ljóst að þrátt fyrir ágjöf á ýmsum stöðum hafi menn verið bjartsýnir og stórhuga.

Gamli bankinn á Selfossi.

Fjórir eigendur hafa átt húsið eftir það kom á Selfoss
Í samtali við Sigfús Kristinsson, núverandi eiganda hússins, segir hann: „Gamli bankinn er 19. aldar hús, grindin 5×5 tommur, tvöföld klæðning að utanverðu með pappa á milli. Eigendur Gamla bankans hafa verið fjórir hér á Selfossi í gegnum tíðina. Fyrst Landsbankinn frá 1919–1939 þá Páll Hallgrímsson frá 1939–1946. Mjólkurbú Flóamanna og Kaupfélag Árnesinga eignaðist svo húsið 1946 og átti fram til ársins 1979. Þá keypti ég það af þeim.“

Húsið var upphaflega reist sem verslunarhúsnæði vestur í Búðardal. Það sinnir hlutverki sínu áfram, 100 árum seinna, sem verslunarhúsnæði á besta stað á Selfossi.

 

 

 

 

 

 

 

Nýjar fréttir