7.3 C
Selfoss

Meira flokkað og minna hent í Rangárvallasýslu

Vinsælast

Ekki er ofsögum sagt að mikil vakning hafi átt sér stað á Íslandi þegar kemur að flokkun og endurvinnslu. Rangárvallasýsla er þar engin undantekning. Strax í byrjun árs fór Sorpstöð Rangárvallasýslu, sem sér um sorphirðu frá heimilum í sýslunni, af stað með veigamikið kynningarstarf. Opnuð var facebook síða fyrir Sorpstöðina þar sem miðlað er upplýsingum um sorphirðu og flokkun í sýslunni ásamt því að svara spurningum um málaflokkinn sem brenna á íbúum. Mikil umferð er um facebook síðuna og ljóst að íbúar eru virkilega áhugasamir um að flokka rétt, vernda umhverfið og þar með spara peninga í sorphirðugjöldum.

Ágúst Sigurðsson stjórnarformaður svaraði spurningum gesta fyrir hönd Sorpstöðvarinnar.

Næsta skref var að bæta við flokkunarmöguleika. Um miðjan maí var farið af stað með að flokka lífrænt sorp frá almenna sorpinu. Sorpstöð Rangárvallasýslu hefur útvegað hverju heimili í sýslunni brúnt ílát til að setja ofan í tunnuna með almennu sorpi, litla tunnu til að hafa inni, sem og ársbirgðir af maíspokum. Til að kynna þennan nýja flokkunarmöguleika og skerpa almennt á flokkun og sorphirðu í sýslunni voru tveir afar fjölmennir kynningarfundir haldnir 21. og 22. maí. Ágúst Sigurðsson, formaður stjórnar Sorpstöðvar Rangárvallasýslu, opnaði fundina með nokkrum orðum um þetta ferli sem búið er að vinna að. Jón Sæmundsson hjá Verkís fór yfir flokkun og nýtt sorphirðudagatal og Árný Lára Karvelsdóttir og Eiríkur Vilhelm Sigurðarson, markaðs- og kynningarfulltrúar Rangárþings ytra og eystra, fóru yfir helstu spurningar sem borist hafa í gegnum facebook síðu Sorpstöðvarinnar ásamt því að segja frá því sem framundan er í kynningarmálum. Sævar Helgi Bragason kom svo með afar skemmtilegt og fræðandi innlegg sem hann nefndi „Hvað höfum við gert?“ og byggði að nokkru leiti á samnefndum þáttum sem sýndir hafa verið á RÚV í vetur.

Eins og áður sagði er ljóst að mikil vakning hefur átt sér stað í málaflokknum og spurningar fundargesta báru það sannarlega með sér að íbúar eru virkilega áhugasamir um að flokka og flokka rétt.

Allar nánari upplýsingar um flokkunarstarf og sorphirðu í Rangárvallasýslu má finna á títtnefndri facebook síðu https://www.facebook.com/sorpstodrangarvallasyslu/ og á heimasíðum sveitarfélaganna þriggja er standa að Sorpstöð Rangárvallasýslu, þ.e. Ásahreppur, Rangárþing ytra og Rangárþing eystra.

 

Nýjar fréttir