6.7 C
Selfoss

Nýtt og spennandi grunnám í matvæla- og ferðagreinum í FSU

Vinsælast

Fjölbrautaskóli Suðurlands mun bjóða upp á nýtt á grunnnám í matvæla- og ferðagreinum í haust. „Námið á brautinni er ætlað nemendum sem stefna að frekara námi í matvæla- og ferðagreinum. Námið er tvær annir og er undirbúningur fyrir iðnnám í matreiðslu, bakstri, framreiðslu og kjötiðn. Það er einnig undirbúningur fyrir frekara nám í matartækni og/eða í ferðaþjónustu, segir Guðríður Egilsdóttir, fagkennari í FSu.

Námið opnar ýmsa möguleika
„Nemendur sem ljúka þeim áföngum sem eru á brautinni, fá alla áfanga metna inn á fyrrgreindar iðngreinar. Ásamt því eru metnar sex vikur úr vinnustaðaþætti námsins sem starfsþjálfun á þeirri námsbraut sem þeir velja í framhaldi af grunnámsbrautinni. Inntökuskilyrði á brautina eru að nemendur hafi lokið kjarnagreinum grunnskóla með fullnægjandi árangri. Nemendur sem hafa lokið GMF frá FSu hafa haldið áfram námi og lokið iðnnámi við Menntaskólann í Kópavogi og eru nú starfandi hér á Suðurlandi við sínar iðngreinar, segir Guðríður aðspurð að því hvernig námið nýtist nemendum.

Suðurland er stærsta landbúnaðarsvæði landsins og fjölbreytt fyrirtæki í matvælaiðnaði starfa á svæðinu, allt frá frumframreiðslu að neytendamarkaði. „Fyrirtæki þurfa á þessu unga fólki að halda á öllum stigum matvælaframreiðslu. Grunnnám matvæla- og ferðagreina er kennt við FSu á Selfossi, VMA á Akureyri og MK í Kópavogi. Umsóknarfrestur í námið er til 7. Júní og við hverjum áhugasama um að sækja um,“ segir Guðríður að lokum.

Nýjar fréttir