8.4 C
Selfoss

Vinnustofa í vatnslitamálun og sýningarspjall á alþjóðadegi safna

Vinsælast

Söfn eru í stöðugri endurnýjun í viðleitni sinni til að verða gagnvirkari, áhorfendamiðaðri, samfélagslegri, sveigjanlegri, aðlögunarhæfari og hreyfanlegri stofnanir. Þau hafa breyst í menningarmiðstöðvar sem skapa umhverfi þar sem sköpunargleði er sameinuð þekkingu og þar sem gestir geta einnig skapað með öðrum, deilt og átt samskipti. Þetta er fókusinn á alþjóðlega safnadeginum laugardaginn 18. maí og þessu trútt býður Listasafn Árnesinga gestum í heimsókn. Á boðstólum eru tvær sýningar, Einu sinni var… og Mismunandi endurómun, og tveir dagskrárliðir sem gestir geta tekið þátt í, vinnustofa í vatnslitamálun og leiðsögn/spjall um sýninguna Mismunandi endurómun.

Kirsten Fugl og Ingelise Flensborg, sem nú dvelja í listamannahúsinu í Hveragerði, eru myndlistarmenn sem líka hafa langa reynslu af því að kenna myndgreinakennurum. Þær munu leiðbeina byrjendum sem lengra komnum við að virkja sköpunargleði sína með vatnslitum laugardaginn 18. maí kl. 13–15. Fyrstur kemur fyrstur fær því í vinnustofunni geta aðeins tólf tekið þátt og eru þátttakendur beðnir um að koma með sína liti og áhöld þó einnig verði pappír og einhverjir litir til staðar. Tilvallið er líka að skoða sýninguna Einu sinni var… þar sem sjá má vatnslitaverk eftir Ásgrím Jónsson sem er rómaður fyrir færni í vatnslitum.

Kirsten Fugl leiddi kennslufræðina við Hákskólann í Vordingvorg í Danmörku og hefur kynnt sér vel möguleika tjáningar með vatnslitum og áhrif litarefna hvert á annað í fljótandi formi. Hún segir eiginleika einstakra litarefni ólíka, sum litarefni safnast saman og gefa öðrum pláss meðan önnur dreifa úr sér og ýta öðrum litum frá.

Ingelise Flensborg var í 6 ár lektor við Háskólann í Árósum og 25 ár við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn með áherslu m.a. á list- og safnakennslu og er höfundur nokkurra bóka á sínu sviði.

Klukkan þrjú mun síðan Inga Jónsdóttir, sýningarstjóri sýningarinnar Mismunandi endurómun, ganga um sýninguna með gestum, svara spurningum og segja frá sýningunni, verkunum og höfundum þeirra. Höfundarnir sex eru allir búsettir í Þýskalandi og reka þar eigin vinnustofur, einn þeirra er Sigrún Ólafsdóttir frá Selfossi. Stærð og umfang verkanna er mjög mismunandi, en sýningin snýst um það að verkin nái að kallast á innbyrðis og við húsakynni safnsins. Fjölbreytileikinn felst í hugmyndalegri útfærslu verkanna sem eru unnin með blandaðri tækni, ýmist ný eða eldri verk, skúlptúrar, málverk, textíll og innsetningar af ýmsum toga.

Nýjar fréttir