2.3 C
Selfoss
Home Fréttir Meðlæti með nautakjöti eða lambi

Meðlæti með nautakjöti eða lambi

0
Meðlæti með nautakjöti eða lambi
Gunnar Biering Agnarsson.

Sunnlenski matgærðingurinn er Gunnar Biering Agnarsson.

Fékk áskorun frá Ingvari í síðustu Dagskrá um að vera matgæðingur vikunnar. Svar mitt við henni er hér fyrir neðan:

Ég vil byrja á að þakka Ingvari vini mínum fyrir áskorunina. Ég tek henni fagnandi. Fyrir stuttu varð ég þess heiðurs aðnjótandi að snæða kvöldverð sem hann framreiddi. Matseðill þess kvölds samanstóð að miklu leyti af þeim réttum sem hann deildi með okkur í síðasta tölublaði Dagskrárinnar. Hvílík veisla!
Fjölskylda okkar hjóna hefur vaxið töluvert á undanförnum árum en við eigum 5 börn og 1 barnabarn. Aðeins 1 barnanna býr enn hjá okkur svo til að hitta þau öll þurfum við oftar að bjóða í mat en áður. Þessar stundir eru okkur mjög dýrmætar því hvað erum við án fjölskyldu eða vina?
Þó ég muni deila með ykkur uppskrift eftir nokkrar setningar verð ég að skjóta því inn að við Hvergerðingar eignuðumst framúrskarandi fiskverslun í lok ágúst 2016. Þar hef ég oft keypt fiskisúpu til að bjóða gestum, t.d. í lítilli brúðkauspveislu okkar hjóna og eins við önnur tækifæri þar sem fyrirvari hefur verið stuttur. Ávallt fyrsta flokks fiskur og yfirleitt úrval af fiskréttum. Við Hvergerðingar erum mjög lánsamir að hafa slíka fiskverslun í okkar samfélagi.
Ég mun deila með ykkur uppskriftum af meðlæti sem ég býð oft upp á með nautakjöti eða lambi. Ákvað að sleppa uppskrift af kjötinu sjálfu, í eldri tölublöðum eigum við ríkulegt úrval góðra uppskrifta svo ég læt meðlætið duga að þessu sinni. Sósa sem ég geri oft með nautakjöti er svona:

Sveppasósa fyrir 4
1 box sveppir
½ ltr. rjómi
Íslenskt smjör eftir þörfum
1 tsk. rifsberjagel
1 tsk. timian
Hugsanlega ½ til 1 teningur nautakraftur. Salt og pipar ef þörf er á.

Skerið sveppina gróflega og steikið upp úr smjörinu. Yfirleitt hef ég lokað kjöti á pönnu áður og steiki þá sveppina á sömu pönnu og kjötið var steikt á, án þess að þrífa hana á milli. Fæ þá afgang af salti og pipar í sósuna sem ég hef notað þegar ég steikti kjötið. Notist við miðlungshita en sparið ekki smjörið. Þegar sveppirnir eru klárir bætið rjómanum við og hitið að suðumarki. Setjið timian og rifsberjagelið útí.
Látið malla við vægan hita á meðan sósan þykknar. Ef þörf er á bætið við nautakrafti (1/2 til 1 teningi). Ég nota reyndar frekar soð af kjöti ef það er til staðar. Hef aldrei verið hrifinn a hveitibollum í sósur svo ég nota frekar Maizena ef þörf er á að þykkja sósuna.

Mig langar einnig til að deila með ykkur kartöfluuppskrift sem ég hef notað til hátíðarbrigða undanfarið og gengur vel með hvaða kjötrétti sem er.

Hugsað fyrir 4:
Ofnbakaðir kartöfluhelmingar
12 kartöflur
½ bolli brætt smjör
Rifinn parmesan ostur
Hvítlauksduft

Krydd að vild en ég nota yfirleitt Season All. Hitið ofninn í 200°C. Skerið kartöflur í tvennt á langhliðina. Bræðið smjör og setjið í botninn á eldföstu formi (passið að hafa formið ekki of stórt, smjörið þarf að fylla vel út í formið) og rífið vel af parmesan osti yfir. Kryddið og raðið kartöflunum í formið með sárið niður í smjörið. Bakið í 40-45 mínútur.

Svo er nauðsynlegt að hafa eitthvað grænt með. Mæli með að þið prufið að elda eggaldin og tómata í ofni. Þurfið þá:
1 – 2 eggaldin
4  tómatar eða margir litlir
Hvítlaukssalt, mulinn svartur pipar og nýrifinn parmesanostur.

Sneiðið í sirka 5 mm þykkar sneiðar og dreifið á ofnplötu. Stráið pipar, hvítlaukssalti og skammtið svo ostinn með skeið á hverja sneið.
Bakið á 175°C í 20 mín. eða þar til osturinn er tilbúinn.

Eins og þið sjáið þá er ég ekki mikið fyrir matreiðslurjóma eða fitulítið viðbit. Stundum þarf maður að leyfa sér og þá er um að gera að fara alla leið. Borðum bara hóflega og njótum.

Að lokum tilnefni ég vin minn Jóhann Ásgrím Pálsson, sérfræðing hjá Landsbankanum. Mig grunar að hann leiði okkur í allan sannleikann um ketó-mataræðið.