2.7 C
Selfoss
Home Fastir liðir Félagsráðgjafar á Suðurlandi Bíddu mamma, ekki hlaupa svona hratt

Bíddu mamma, ekki hlaupa svona hratt

0
Bíddu mamma, ekki hlaupa svona hratt
Heiða Ösp Kristjánsdóttir.

Hugtök eins og streita, kulnun og örmögnun eru frekar nýleg í umræðunni á Íslandi og má segja að samfélagsleg vitundarvakning eigi sér stað um neikvæð áhrif langvarandi streitu og álags á einstaklinginn. Þessi einstaklingur er oftast hluti af fjölskyldu og finnur hún oftast fyrir afleiðingunum. Skoða þarf vel hvaða kröfur einstaklingar eru farnir að gera til sín sjálfra, hvaða kröfur atvinnulífið gerir á sína starfsmenn og hvaða kröfur samfélagið gerir á einstaklinginn.

Í mínu starfi sem félagráðgjafi hef ég orðið mjög vör við allar „tilbúnu” kröfurnar sem einstaklingar setja á sjálfa sig. Vil ég þá helst nefna kröfurnar á mæður að sinna vinnu vel, börnum, eigin heilsu og heimili. En hvaðan koma allir þessir streituvaldar og hvað er til ráða? Erum við að gera raunhæfar kröfur á okkur sjálf og maka okkar? Til þess að svara þessum spurningum er mikilvægt að skoða hvort að einstaklingurinn setji sér raunhæf markmið og muna að það geta ekki allir verið meistarar í öllu. Samtal um forgangsröðun, skipulag og jafnvægi getur hjálpað einstaklingnum að greina streituvaldana og að takast á við þá. Mikilvægt er að forgangsraða verkefnum og er þá sérstaklega horft til foreldra. Það er mjög fín lína á milli þess að ráða við hlutina eða að hafa allt of mikið að gera. Það getur haft þær afleiðingar að ánægja í daglegu lífi og starfi minnkar mikið og streita eykst.

Foreldrar sem fyrirmynd þurfa að skoða vel líðan sína og streituvalda með tillit til samveru með fjölskyldu. Mikilvægt er að börn og foreldrar myndi örugg tengsl á fyrstu æviárunum, að foreldrar séu til staðar fyrir börnin og eigi með þeim jákvæðar samverustundir. Mikilvægt er að átta sig á streitu sem fylgir notkun snjalltækja sem eru oft í samkeppni um athygli. Hreyfing gagnast vel til að losa um streitu og er tilvalið að njóta samvista með börnum og losa um streitu t.d. með göngu niður í fjöru, upp á fjall eða inni í skóg.

Kulnun er frekar nýtt hugtak sem er oftast notað í tengslum við störf einstaklinga. Það er misjafnt á milli faghópa og landa hvernig einkennin eru skilgreind og því ekki hægt að segja með vissu hversu algeng kulnun sé. Kulnun kemur í kjölfar langavarandi streituástands. Kulnun er hugtak sem lýsir sér sem líkamleg, andleg og sálræn örmögnun.

Félagsráðgjafar vinna með einstaklingum og fjölskyldum þeirra. Hægt er að fá ráðgjöf hjá félagsráðgjöfum um það hvernig minnka megi streituvalda í daglegu lífi. Hægt er að skoða gagnlegt efni á velvirk.is þar sem sérstaklega er fjallað um jafnvægi í lífi og vellíðan í vinnu. Mikilvægt er að setjast sérstaklega niður, skoða streituvalda og setja raunhæf markmið hvernig megi minnka streituna. Munum að njóta en ekki þjóta.

Heiða Ösp Kristjánsdóttir, félagsráðgjafi MA og starfar hjá Virk.