11.1 C
Selfoss
Home Fréttir Húsnæði í Hveragerði

Húsnæði í Hveragerði

0
Húsnæði í Hveragerði
Njörður Sigurðsson, bæjarfulltrúi Okkar Hveragerðis.

Á dögunum var húsnæðisáætlun Hveragerðisbæjar lögð fram til síðari umræðu í bæjarstjórn. Í henni eru greinargóðar upplýsingar um stöðu á húsnæðismarkaði í Hveragerði og áætlanir um íbúðaþörf til ársins 2027. Húsnæðisáætlun er forsenda þess að sveitarfélagið geti unnið skipulega að uppbyggingu auk þess að hafa það markmið að stuðla að auknu húsnæðisöryggi heimila í Hveragerði. Húsnæðisáætlun er líka stefnuyfirlýsing sveitarfélags um hvernig mæta á húsnæðisþörf til skemmri eða lengri tíma hjá öllum samfélagshópum. Hægt er að kynna sér húsnæðisáætlun Hveragerðisbæjar á vef sveitarfélagsins.

Félagslegt leiguhúsnæði
Í húsnæðisáætlun Hveragerðisbæjar er gert ráð fyrir að til ársins 2027 sé þörf á sjö félagslegum leiguíbúðum. Þessi tala virðist vera fundin út frá því hversu margar umsóknir eru nú um félagslegt leiguhúsnæði hjá Hveragerðisbæ. Eins og staðan er nú á Hveragerðisbær þrjár félagslegar leiguíbúðir en þær ættu að vera 16 talsins ef þær væru hlutfallslegar jafnmargar og hjá Sveitarfélaginu Árborg og Ölfusi. Þegar horft er til stöðu sveitarfélaga á landsvísu er fjöldi félagslegra leiguíbúða á hverja þúsund íbúa með þeim lægstu í Hveragerði, jafnvel sveitarfélögin Garðabær og Seltjarnarnesbær, sem jafnan eru nefnd sem dæmi um sveitarfélög sem standa sig mjög illa í þessum málum, eru betur sett þegar kemur að framboði á félagslegu húsnæði á hverja þúsund íbúa. Það er sameiginleg ábyrgð allra sveitarfélaga að sjá til þess að nægt framboð sé á félagslegu leiguhúsnæði í öllum sveitarfélögum. Sveitarfélög sem ekki bjóða upp á nógu margar félagslegar leiguíbúðir eru þannig að velta ábyrgðinni yfir á önnur. Hveragerðisbær þarf því að axla sína ábyrgð og standa sig í þessum málum. Framboð á félagslegu leiguhúsnæði í Hveragerði á auðvitað að vera sambærilegt og í nágrannasveitarfélögunum.

Almennar leiguíbúðir
Í húsnæðisáætlun Hveragerðisbæjar er jafnframt gert ráð fyrir að þörf sé að sex almennum leiguíbúðum til ársins 2027 og er miðað við að fjöldi leiguíbúða af nýjum íbúðum í bæjarfélaginu verði ekki lægra en 15%. Þessi talan er fundin út frá því hvernig leigumarkaðurinn er í Hveragerði og á landinu almennt. Á Íslandi búa um 16–18% af íbúum 18 ára og eldri í leiguíbúðum og í áætluninni er leitt líkum að því að um 7–12% íbúa í Hveragerði séu í leiguhúsnæði. Á Norðurlöndunum og víða í Evrópu er hlutfall íbúa í leiguhúsnæði mun hærra en þekkist hér á landi og er til að mynda áætlað að um 35% Dana búi í leiguhúsnæði. Með það að markmiði að stuðla að auknu húsnæðisöryggi í sveitarfélaginu ætti Hveragerðisbær að hafa það markmið að hlutfall almennra leiguíbúða, s.s. í gegnum leigufélög sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða, verði mun hærri en 15%. Með því myndu bæjaryfirvöld auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði fyrir efnaminni fjölskyldur.

Húsnæði fyrir alla
Í umræðum í bæjarstjórn benti undirritaður á að forsendur og stefna húsnæðisáætlunarinnar er varðar félagslegt og almennt leiguhúsnæði mætti ekki nægilega vel því markmiði að tryggja öllum samfélagshópum öruggt og gott húsnæði. Með því að leggja mikla áhersla á séreignastefnu í húsnæðismálum og minni á uppbyggingu leiguhúsnæðis er hætta á því að þörfum efnaminni hópa samfélagsins sé ekki mætt. Sveitarfélögin hafa mikið um það að segja hvort og hvernig heilbrigður leigumarkaður þróast og þurfa þau að beita sér í þeim málum.

Njörður Sigurðsson, bæjarfulltrúi Okkar Hveragerðis.