10 C
Selfoss

Selfyssingar komnir í úrslit

Vinsælast

Karlalið Selfoss komst í kvöld í úrslit Olísdeildarinnar í handbolta er liðið vann Val 29-26 í þriðja leik liðanna í undanúrslitum í troðfullri Hleðsluhöllinni á Selfossi. Selfoss vann einvígið við Val 3-0.

Leikurinn í kvöld var jafn framan af. Jafnt var á tölum til að byrja með og síðan skiptust liðin á að vera marki yfir. Á 26. mínutu jöfnuðu Valsmenn 14-14. Síðustu mínútur hálfleiksins náðu Selfyssingar yfirhöndinni og voru þremur mörkum yfir er flautað var til leikhlés 17-14.

Í síðari hálfleik var munurinn lengi vel 2-3 mörk. Um miðjan síðari hálfleik náðu Selfyssingar fjögurra marka forystu 24-20. Valsmenn náðu síðan að minnka muninn niður í tvö mörk en aftur bættu Selfyssingar í og þegar um 6 mínútur voru eftir var staðan 27-22. Valsmenn reyndu að minnka muninn en náðu því ekki. Lokatölur urðu 29-26.

Mörk Selfoss skoruðu: Elvar Örn 6/2, Hergeir 5, Árni Steinn 4, Haukur 4, Nökkvi Dan 3, Guðni 3, Atli Ævar 2, Alexander Már 1og Pawel 1.
Pavel varði 10 skot og Sölvi 1.

Mörk Vals skoruðu: 8/2 Anton, 7 Ýmir Örn, 4 Róbert Aron, 2 Ásgeir Snær, 2 Sveinn Aron, 1 Orri Freyr, 1 Vignir og 1 Arnór Snær.
Daníel Freyr varði 14/1 skot.

Selfoss mætir annað hvort Haukum eða ÍBV í úrslitum Olísdeildarinnar. Staðan í einvígi Hauka og ÍBV er 2-1 fyrir Hauka en fjórði leikur liðanna fer fram miðvikudaginn 8. maí í Vestmannaeyjum.

Fyrsti leikur úrslitaeinvígisins er þriðjudaginn 14. maí. Þess má geta að Selfyssingar léku síðast til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn vorið 1992 eða fyrir 27 árum og lutu í lægra haldi fyrir FH 3-1.

Nýjar fréttir