1.1 C
Selfoss

Þakklæti

Vinsælast

Þegar gleðin tekur völd hefur þakklætið sig til flugs – og hjartað hlýnar segir í góðu spakmæli. Þakklæti er magnað fyrirbæri. Þakklæti er leynivopn sem hægt er að nota á tímum sorgar og gleði. Suma daga líður manni eins og það sé lítið sem hægt er þakka fyrir en þegar betur er að gáð er ótrúlega margt sem við tökum sem sjálfsagðan hlut en getum svo sannarlega þakkað fyrir. Þegar þakklæti fær meira pláss í hjarta manns þá fer maður að taka betur eftir stóru og smáu hlutunum í kringum sig. Grasið verður grænna, loftið verður ferskara og litirnir verða skærari. Ég finn að það hefur mjög jákvæð áhrif á mig þegar ég skrifa niður eða segi upphátt hluti sem ég er þakklát fyrir. Í nokkuð langan tíma hef ég verið með stillta vekjaraklukku á símanum mínum sem hringir á hverjum degi klukkan 18:00. Heitið á þessum vekjara er þakklæti. Fyrst um sinn var þetta til að minna mig á mikilvægi þess að þakka og horfa á hluti í kringum mig sem ég get verið þakklát fyrir. Ástæðan fyrir því að ég valdi þennan tíma er sú að þetta er tíminn rétt fyrir kvöldmat, þegar mikið er að gera. Börnin eru orðin svöng og allir eru orðnir þreyttir eftir daginn. Mér fannst gott að beina huga mínum að því að vera þakklát á þessum stundum. Þegar á leið fór ég að virkja fjölskylduna mína með í þessa æfingu. Á ferðalaginu okkar til Ástralíu og Balí hringdi vekjarinn daglega klukkan 18:00 og voru börnin farin að vita að þegar klukkan hringdi var hún 18 og allir sögðu upphátt eitthvað sem þau voru þakklát fyrir. Þetta hafði góð áhrif og var mjög jákvætt innlegg inn í daginn. Það er mér mjög minnisstætt þegar við höfðum verið föst í umferðarteppu á Balí í 2 tíma að klukkan hringir og við förum öll hringinn til að segja það sem við vorum þakklát fyrir. Þetta hafði mjög jákvæð áhrif á andrúmsloftið sem var heitt, sveitt og mjög þreytt.

Ég hef ferðast víða og það hefur vakið athygli mína hversu oft fólk sem á mjög lítið er glaðlynt og þakklát. Það er þakklátt fyrir lífið. Það er þakklát fyrir hvern dag og hverja stund. Munurinn á því að vera þakklátur og vanþakklátur getur verið eins og munurinn er á góðu og slæmu. Ég finn það að sjálfri mér að þegar ég tileinka mér þakklæti þá verður lífið innihaldsríkara og hjartað hlýnar eins og segir í spakmælinu.

Ég hvet þig til þess að stilla vekjaraklukkuna þína í dag og minna þig á að vera þakklát/ur á hverjum einasta degi. Það er svo margt að þakka fyrir. Það er svo margt sem við tökum sem sjálfsagðan hlut.

Þegar gleðin tekur völd hefur þakklætið sig til flugs – og hjartað hlýnar

Kærleikskveðja,

Gunna Stella, IIN Heilsumarkþjálfi

Nýjar fréttir