-2.2 C
Selfoss

Troðfullt hús hjá Sólheimaleikhúsinu

Vinsælast

Sannkallað sumarveður lék við gesti á Sólheimum þegar leikfélagið frumsýndi leikverkið Leitin að sumrinu á sumardaginn fyrsta, 25. apríl sl. Sýningin fékk frábærar viðtökur og höfðu gestir orð á því að þetta væri besta sýning leikfélagsins í fjölda ár, að öðrum ólöstuðum. Uppselt var á frumsýninguna og í raun var húsið troðfyllt. Leikhópurinn þurfti að breyta sýningunni örlítið vegna húsfyllis en ekki var mögulegt að komast út í salinn fyrir leikarana. Gestir drukku svo kaffi og nutu meðlætis í veðurblíðunni á Grænu könnunni að sýningunni lokinni. Tvær sýningar voru um helgina sem leið og eru því aðeins þrjár sýningar eftir, á miðvikudag (1. maí) og um næstu helgi (laugardag og sunnudag).

Leitin að sumrinu fjallar um hann Jón sem þekkir ekki annað en eilíft sumar. Dag einn fara skrýtnar persónur að ryðjast inn í líf hans, hver á fætur annarri og skipta um árstíðir. Jón er í fyrstu alls ekki sáttur við þessar breytingar, en lærir smám saman að hver árstíð hefur sína kosti og galla.

Höfundar eru leikstjórinn Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson ásamt Ástþóri Ágústsyni og Magnúsi Guðmundssyni. Tónlistina semur Hallbjörn V. Rúnarsson forstöðuþroskaþjálfi á Sólheimum. Rúmur helmingur íbúa og starfsmanna Sólheima koma á einhvern hátt að sýningunni.

Gestir í Sólheimaleikhúsinu.

Þessi sýning, eins og aðrar, hjá Leikfélagi Sólheima er einstök á svo margan hátt. Það eitt að geta haldið úti starfandi leikfélagi í svona litlu byggðahverfi er einstakt en tilgangur þess er líka örlítið frábrugðinn öðrum leikfélögum, að efla þátttöku fatlaðs fólks í leiklist. Í farsælu samstarfi félagsins við Guðmund Lúðvík leikstjóra hefur sú venja skapast að á fyrri hluta æfingatímabilsins er mátað í hlutverkin og handritið mátað að hópnum, eða jafnvel skrifað og svo sniðið að þörfum og óskum hópsins. Allir leikarar eru því þátttakendur í skapandi ferli sem er dýrmætur hluti af þátttökunni. Það sama á við um tónlistina. Hún er skrifuð samhliða æfingaferlinu og höfundur sækir innblástur í óskir, væntingar og smekk leikaranna.

Eins og fyrr sagði eru einungis þrjár sýningar eftir. Sýningin hentar öllum aldri en börn eru sérstaklega velkomin.

Hallbjörn V. Rúnarsson, formaður Leikfélags Sólheima

Nýjar fréttir