3 C
Selfoss

Aðild að Íslenska ferðaklasanum samþykkt

Vinsælast

Aðild Hveragerðisbæjar að Íslenska ferðaklasanum hefur verið samþykkt af bæjarstjórn Hveragerðis og gildir samningurinn í eitt ár til reynslu.

Með samstarfinu vonast bæjarstjórn til þess að hægt verði að efla ferðaþjónustu enn frekar í bæjarfélaginu og að samstarfið feli í sér ýmis góð og spennandi tækifæri fyrir Hveragerðisbæ sem þar með færir fulltrúum hans möguleika til eflingar tengsla og nýrra verkefna. Þetta kemur fram á heimasíðu sveitarfélagsins.

Íslenski ferðaklasinn var formlega stofnaður í mars 2015. Að klasanum stendur breiður hópur ólíkra fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana sem öll hafa það markmið að ferðaþjónusta vaxi og dafni til framtíðar. Helsta hlutverk Íslenska ferðaklasans er að efla samkeppnishæfni og auka verðmætasköpun í ferðaþjónustu með því að stuðla að nýsköpun, hvetja til aukinnar hæfni og gæða á öllum sviðum ásamt því að hvetja til að innviðir greinarinnar séu styrktir.

Á vettvangi klasans eru fjölbreytt verkefni, ýmsar ráðstefnur, málþing og fræðsluerindi sem tengja saman ólíka aðila og mynda grunn að samstarfi og nýjum verkefnum.

„Sveitarfélagið getur sótt sér nýja þekkingu, færni og tengsl sem efla það í þjónustu sinni við fyrirtækin á svæðinu ásamt þjónustu við íbúa til lengri og skemmri tíma. Þátttaka sveitarfélagins er í leiðinni táknrænn stuðningur við þau fyrirtæki á svæðinu sem stunda öfluga ferðaþjónustu sem eflir um leið áfangastaðinn bæði til búsetu með auknu þjónustustigi og gerir svæðið betur til þess fallið að ferðamenn stoppi þar lengur við og njóti fleiri þjónustuþátta,“ segir á heimasíðunni.

Nýjar fréttir