-3.3 C
Selfoss
Home Fréttir Karlar greinast líka með krabbamein

Karlar greinast líka með krabbamein

0
Karlar greinast líka með krabbamein

Hópur félaga í Krabbameinsfélagi Árnessýslu hittist reglulega í hverri viku í húsnæði Rauða krossins á Selfossi og nýtur jafningjastuðnings og góðrar samveru. Einn daginn, mitt í miðju kaffispjallinu, kemur upp sú spurning hvar allir karlarnir séu! Við stelpurnar beinum spurningunni að eina karlinum í hópnum og vonumst til þess að hann hafi svörin. Tölulegar staðreyndir sýna okkur að 10% þeirra sem greinast með krabbamein, á landsbyggðinni, búa á Suðurlandi. Það staðfestir að karlar á Suðurlandi greinast líka með krabbamein! Við gerum ráð fyrir að þeir, rétt eins og við konurnar, upplifi mikinn tilfinningarússibana og þurfi ráðgjöf og stuðning í gegnum ferlið. Þessir menn eiga líka fjölskyldur, rétt eins og við konurnar.

Krabbameinsfélag Árnessýslu hefur á síðustu árum vaxið mikið og er starfsemi þess sífellt að verða fjölbreyttari og öflugari. Félagið er fyrir þann sem hefur nýlega greinst með krabbamein, þann sem er í miðri meðferð og líka þann sem hefur fyrir löngu lokið meðferð. Jafnt fyrir karla sem konur og ekki síður fyrir aðstandendur. Félagið hefur sem fyrr segir, staðið fyrir vikulegum samverum þar sem félagar koma saman til að spjalla, deila reynslu, læra og fræðast hver af öðrum en einnig til að fá fræðslu sem viðkemur krabbameinum og öllu ferlinu í kringum það. Drukkið er kaffi og gætt sér á súkkulaði í góðra vinahópi. Í samvinnu við Golfklúbb Selfoss býður félagið uppá golfnámskeið fyrir félaga sína á vormánuðum þeim að kostnaðarlausu, niðurgreiðsla er á jógaiðkun auk þess sem félagið kemur til móts við sína félaga á margan hátt hvað varðar fjárhagslegan stuðning. Þetta er skemmtilegur félagsskapur þar sem allir eiga eitthvað sameiginlegt, allir koma á sínum eigin forsendum og öllum er sýnd virðing, traust og skilningur.

Við viljum mæta þjónustuþörf karla með krabbamein og aðstandenda þeirra. Við vitum af þessum hópi úti í samfélaginu, heyrum um þá og við viljum fá þá í félagið. Þess vegna fer félagið af stað með sérstakan karla hitting nú í apríl og mun umsjón með hópnum vera í höndum karlmanna með reynslu og þekkingu af því að greinast með krabbamein. Hópurinn er hugsaður sem jafningjastuðningur, fræðsla og góð samvera.

Ef þú ert karlmaður sem hefur greinst með krabbamein, þá hvetjum við þig til að mæta í karlahitting fimmtudaginn 25. apríl kl.18:00 í húsnæði Rauða Krossins á Selfossi að Eyravegi 23.

Ef þú hefur einhverjar spurningar varðandi starfsemi félagsins hvetjum við þig til að senda okkur póst á arnessysla@krabb.is finna okkur á Facebook undir nafninu Krabbameinsfélag Árnessýslu eða hringja í starfsmann félagsins í síma 788 0300 (Erla).

Fyrir hönd Krabbameinsfélag Árnessýslu,
Svanhildur Ólafsdóttir, formaður.