11.7 C
Selfoss

Af starfi Skógræktarfélags Rangæinga

Vinsælast

Skógræktarfélag Rangæinga var stofnað í nóvember 1943 og hefur starfað nær óslitið síðan, þó með mis miklum krafti.

Árið 2018 var viðburðaríkt í starfi félagsins en þá sá það um aðalfund Skógræktarfélags Íslands sem var haldinn í Rangárþingi dagana 31. ágúst til 2. september. Undirbúningur var töluverður og einkum fólginn í grisjun með brautum í skógi félagsins í Bolholti og endurbótum á brautum á sama stað. Allt kapp var lagt á að geta komið gestum aðalfundar um svæðið og sýna þann mikla ávinning sem orðinn er á landi í Bolholti sem var nær örfoka þegar Skógræktarfélag Rangæinga tók við því 1989 og hóf stórfellda gróðursetningu og uppgræðslu á landinu. Stjórn félagsins vann að þessum undirbúiningi hörðum höndum og uppskar almenna ánægju aðalfundargesta með útkomuna.

Fundurinn sjálfur var haldinn á Stracta Hóteli á Hellu og var aðbúnaður allur hinn besti og nægt hótelrými fyrir gesti.

Föstudaginn 31. ágúst var keyrt upp Landsveit og Hellarnir á Hellum skoðaðir undir leiðsögn Margrétar Grétarsdóttur og Birgis Arnar Haukssonar. Margrét tók jafnframt lagið fyrir viðstadda í hellunum við undirleik Hrafnkels Guðnasonar. Af því var gerður góður rómur. Frá Hellum var haldið inn á Hekluskóga, svæðið austan við Þjórsá á móts við Búrfell, og þar gaf að líta þróttmiklar skógarplöntur sem dafna ótrúlega vel. Það voru gestir fræddir um Hekluskógaverkefnið af þeim Hrönn Guðmundsdóttur, verkefnisstjóra Hekluskóga, og Hreini Óskarssyni, sviðsstjóra samhæfingarsviðs Skógræktarinnar.

Þá var haldið austur fyrir Rangá og keyrt niður Rangárvelli með viðkomu í Bolholtsskógi. Skógurinn var skoðaður og voru gestir sammála um að þar gæfi að líta ótrúlega framvindu enda skógurinn orðinn mikill að umfangi. Gestum var boðið upp á léttar veitingar í Bolholtsskógi. Síðan var ekið sem leið lá að Hellu.

Laugardaginn 1. september var síðan haldið inn að Heylæk í Fljótshlíð þar sem Sigurður Haraldsson skógarbóndi tók ásamt fjölskyldu sinni á móti gestum og sagði frá skógræktinni og safninu sem hann hefur komið sér upp á Heylæk. Magnaður staður og ekki skemmdi lífleg frásögn Sigurðar fyrir.

Þarna var gestum boðin hressing. Síðan var haldið niður Markarfljótsaura hjá Stóru-Dímon og þaðan til baka að Hellu. Þar var hátíðardagskrá og aðalfundur haldinn með hefðbundnu sniði. Þar veitti Skógræktarfélag Rangæinga nokkrum félögum sem hafa verið hvað öflugastir við að starfa fyrir félagið heiðursviðurkenningu, en þetta voru þau Sigurbjörg Elimarsdóttir og Sveinn Sigurjónsson á Galtalæk, Sigurvina Samúelsdóttir á Hellu og Klara Hallgerður Haraldsdóttir á Kaldbak. Eru þeim enn og aftur þökkuð vel unnið störf.

Eftir hefðbundin aðalfundarstörf á sunnudeginum, s.s. kosningar og afgreiðslu tillagna, var haldið austur að Skógum þar sem tré ársins var útnefnt, en það var Salix smithiana „vesturbæjarvíðir“.

Árleg jólatrjáasala félagsins var um miðjan desember í Bolholtsskógi. Margt var um manninn og er þessi viðburður orðinn ómissandi í undirbúninga margra á jólaföstu.

Fundargestir skoða skóginn í Bolholti.

Þann 19. mars sl. var aðalfundur Skógræktarfélags Rangæinga haldinn. Jón Ragnar Örlygsson sem verið hefur formaður félagsins undanfarið gaf ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku og var honum þökkuð vel unnin störf fyrir félagið. Stjórn félagsins er nú þannig skipuð: Sigríður H. Heiðmundsdóttir formaður, Haraldur Birgir Haraldsson ritar og Ásgeir Árnason gjaldkeri. Meðstjórnendur eru Hrafn Óskarsson og Margrét Grétarsdóttir og varamenn eru Guðmundur Ragnarsson, Brynja Jóna Jónasdóttir og Klara Viðarsdóttir.

Margt er framundan hjá félaginu. Gert er ráð fyrir vinnudögum, sveppa-skógargöngu síðsumars og síðan ýmsum verkefnum sem tengjast viðhaldi brauta og skóganna almennt. Hægt er að fylgjast með starfi félagsins á facebook síðu þess og einnig verður heimasíða félagsins eitthvað notuð.

Nýjar fréttir