10 C
Selfoss

Lestur er bestur

Vinsælast

Ég er afskaplega þakklát fyrir bækur. Frá því að ég var krakki hef ég elskað að lesa. Það er langt síðan ég áttaði mig á því að það nærir mig og gefur mér ákveðna hugarró að taka bók í hönd og gleyma mér í lestri. Þegar ég er mjög upptekin og lífið gengur sinn vanagang þá gef ég mér ekki oft tíma til að setjast niður og lesa. Á því lífskeiði sem ég er á núna er ég með fullt hús af börnum, sinni heimili og vinnu og því er ekki alltaf fyrsti kostur að setjast niður með bók.

Gunna Stella.
Gunna Stella.

Þegar ég áttaði mig á því hversu miklu máli bókalestur skiptir mig þá hef ég farið að temja mér þann sið að gefa mér tíma daglega til að lesa, þó það sé ekki nema 20 mínútur. Það hleður mig andlega og skilar sér í betri útgáfu af sjálfri mér. Síðustu ár hef ég notað hljóðbækur mikið og er Storytel í uppáhaldi hjá mér þessi misserinn. Kosturinn við hljóðbækur er að ég get sinnt verklegri vinnu en hlustað á sama tíma. Síðastliðin ár hef ég mikið notast við rafbækur (Kindle) þar sem mér finnst kostur að geta verið með bókasafn með mér hvert sem ég fer inni í þessu litla tæki. Nú er ég til dæmis stödd á Balí og er að ljúka við þriðju bókina síðan ég lagði af stað fyrir þrem vikum. Það hefði ég ekki getað gert ef ég hefði ekki verið með rafbók, þar sem við völdum að ferðast með mjög lítinn farangur. Fyrir tveim vikum þurftum við fjölskyldan að ferðast langa leið innanlands í Ástralíu. Til að stytta okkur stundir þá hlustuðum við á bókina Aukaspyrna á Akureyri saman á meðan við við keyrðum. Allir höfðu gaman af enda er fáir skemmtilegri á að hlusta en Gunnar Helgason þegar hann leikles bækurnar sínar.

Fyrir mig er lestur gæðastund. Hver er þín gæðastund? Hvað er það sem þú elskar að gera en gefur þér ekki nógu oft tíma til að sinna? Ég hvet þig til að gefa þér tíma og viti menn þú munt hafa meiri orku til að sinna öllu öðru.

Gunna Stella, IIN heilsumarkþjálfi, B.ed.
einfaldaralif.is

Nýjar fréttir