7.3 C
Selfoss
Home Fréttir Grillað lambalæri með bláberja- og hunangsmarineringu

Grillað lambalæri með bláberja- og hunangsmarineringu

0
Grillað lambalæri með bláberja- og hunangsmarineringu
Lárus K. Guðmundsson ásamt fjölskyldu sinni.

Lárus K. Guðmundsson er sunnlenski matgæðingurinn þessa vikuna.

Ég vil byrja á því að þakka félaga mínum Jóni Þór fyrir að skora á mig að vera matgæðingur vikunnar. Í áskorun Jóns Þórs segir hann að ég komi svo oft með girnilegan mat í vinnuna; konan mín, hún Kristjana Sigurveig, á nú mestann heiðurinn af þeim veislumat. Þó að Kristjana eldi örugglega í 95% tilfella á okkar heimili á ég þó mína kafla í eldhúsinu. Mér þykir mjög gaman að grilla og er þá alveg sama hvort það er sumar eða vetur. Ég er svo heppinn að vera í matarklúbbi sem heitir Hið íslenska Weber-félag.
Þetta eru félagar með strangar hefðir og reglur og fær ekki hver sem er að vera meðlimur, en félagið saman stendur af fjórum fjölskyldum. Alltaf er þó hægt að reyna að nálgast aðild í félagið. Fyrsta skilyrðið fyrir því að komast í þetta félag er að eiga Weber-grill. Aðrar kröfur eru ekki gefnar upp hér. En ef við snúum okkar af eldamennskunni þá er lambakjöt í miklu uppáhaldi hjá mér og minni fjölskyldu. Ósjaldan er lambalæri á borðum hjá okkur á sunnudögum.

Grillað lambalæri með bláberja- og hunangsmarineringu
Maukið bláber, kryddjurtir, hunang og hvítlauk gróflega saman. Kryddið með salti og pipar. Skerið raufar í lærið og hellið marineringunni yfir. Leyfið síðan kjötinu að marinerast í klukkustund eða yfir nótt, eftir því sem tími leyfir.

Hitið grillið. Leggið kjötið síðan á grillið og slökkvið á brennaranum sem er á þeim helmingi sem kjötið liggur á.
Þá þarf ekki að pakka því inn í álpappír og kjötið fær dásamlegt grillbragð.
Grillið í um 1½ til 2 klst. eftir þyngd eða þar til kjöthitamælirinn sýnir um 72°C.
Mikilvægt er að snúa kjötinu reglulega á um 20 til 30 mínútna fresti.

Það sem til þarf er:
2 – 2½ kg lambalæri (helst að norðan) 
2 dl bláber (fersk eða frosin)
2 msk. hunang
2 stilkar rósmarín
4 stilkar timían, laufin tekin af
4 hvítlauksrif
salt og pipar
olía

Með þessu grilla ég svo sætar kartöflur sem ég sker í strimla á álbakka ég set yfir þær smá matarolíu, salt og pipar til að fullkomna þær.
Góðu kjöti þarf að fylgja góð sósa og er sveppasósa í miklu uppáhaldi hjá okkur.
Laukur og hvítlaukur saxaðir smátt, sveppir sneiddir og allt steikt í potti upp úr smjöri. Nautakrafti bætt við. Hiti lækkaður aðeins og piparosti og rjómaosti bætt út í og látið bráðna. Rjóma bætt út í ásamt rifsberjahlaupi og sojasósu og suðan látin koma upp. Sósujafnara bætt út í og sósan látin malla á vægum hita þar til hún þykknar (sósulit bætt út í til að fá dekkri lit). Sósan smökkuð til með kryddi, rifsberjahlaupi, sojasósu og/eða nautakrafti.
Sveppasósa
1/2 rauðlaukur
1 til 2 hvítlauksrif
sveppir, fjöldi eftir smekk
1 nautakraftur
1/2 piparostur
2-3 msk. rjómaostur
4 dl rjómi (eða matreiðslurjómi)
2 tsk. rifsberjahlaup (heimagert)
2 tsk. sojasósa
sósujafnari
salt og pipar (eftir smekk)

Með þessu er svo gott að hafa salat, ég sker ofast niður gúrku, kál, rauðlauk, rauða papriku, blaðlauk, jarðarber og set í skál. Yfir salatið sett ég svo fetaost og mikilvægt er að setja líka olíuna af fetaostinum.

Í eftirrétt er svo mikilvægt að fá sér mjúkís frá Kjörís og Mars-íssósu til að fullkomna máltíðina.
Að lokum langar mig að skora á Hauk Grönli varaslökkviliðsstjóra hjá Brunavörnum Árnessýslu að vera næsti matgæðingur. Ég veit að Haukur er mikill sælkeri og ekki leiðist honum að galdra fram glæsimáltíðir.