8.4 C
Selfoss
Home Fréttir Ennþá gerast ævintýri

Ennþá gerast ævintýri

0
Ennþá gerast ævintýri

Viltu búa til þitt ævintýri, trölla- eða álfasögu? Og sviðsetja það í sprettimyndabók? Fjölskyldulistasmiðja marsmánaðar í Listasafni Árnesinga tengist sýningunni Einu sinni var… þar sem sjá má þjóðsagnamyndir Ásgríms Jónssonar í sviðsettu umhverfi. Smiðjan verður í Listasafni Árnesinga, Hveragerði, sunnudaginn 31. mars.

Sprettimyndabók er þrívíð bók eða sviðsmynd sem hægt er að draga út og saman líkt og harmónikku en í miðjunni birtist sviðsmynd þar sem þú skapar þitt eigið ævintýri.

Smiðjustjóri er sem fyrr Kristín Þóra Guðbjartsdóttir og hún verður til staðar kl. 14:00–16:00 til þess að aðstoða þátttakendur við að skapa sitt ævintýri í pappír. Börn og foreldrar, ömmur og afar, frænkur og frændur eru hvattir til þess að nýta þetta tækifæri, koma og skoða sýninguna, ræða um hana og skapa saman í listasmiðjunni þar sem allt efni, pappír og litir eru til staðar og aðgangur og þátttaka í listasmiðjunni er ókeypis.

Nánari upplýsingar um sýninguna og dagskrá safnsins má sjá á heimasíðu þess og samfélagsmiðlum.