7.1 C
Selfoss
Home Fréttir Kjúklingabringur með sætum fetaosti

Kjúklingabringur með sætum fetaosti

0
Kjúklingabringur með sætum fetaosti
Þórhildur Hjaltadóttir.

Matgæðingur vikunnar að þessu sinni er Þórhildur Hjaltadóttir.

Mig langar að þakka Kristjáni kærlega fyrir að skora á mig og hafa trú á mér aðeins með því að sjá mig matreiða í gegnum snapchat. Maður verður að passa sig á að trúa ekki öllu sem maður sér á netinu. En það er rétt hjá honum, mér finnst betra að gefa fólki eitthvað gott að borða en eitthvað vont.
Ég á mjög erfitt með uppskriftir og er algjör dassari; hnífsoddur af þessu og aðeins meira hnífsoddur af hinu en ég ætla þó að gera mitt besta hér.

Fordrykkur:
Einn ískaldur Moscow Mule kokteill
Klakar
6 cl (eða dass) af Vodka
1 tsk. ferskur lime-safi
12 cl kaldur engiferbjór
1 lime-sneið
Klakar settir í glas. Hellið Vodkanum, lime safanum og engiferbjórnum í glasið og blandið saman. Lime-sneið sett til skrauts.

Aðalréttur:
Kjúklingabringur með sætum og fetaosti
4 kjúklingabringur
Spínat, einn poki 300-400g
1-2 sætar kartöflur
5 hvítlauksrif í stærri kantinum
Engiferrót ca. 4-5 cm
Fetaostur í kryddlegi
Kóríander

Sætu kartöflurnar eru sneiddar niður og látnar þekja botn á eldföstu móti. Engiferrótin og hvítlaukurinn maukaður í vél eða rifinn yfir með rifjárni. Spínatið er sett yfir og 1/3 af krukkunni af fetaostinum hellt yfir. Þetta er sett inn í ofn í ca. 20 mín. við 180-200°C. Kjúklingabringurnar eru kryddaðar eftir smekk og forsteiktar ca. 85% af eldunartímanum (kjöthitamælir 72°C). Bringurnar eru settar ofan á spínatið og mótið sett aftur inn í 10 mín. eða þar til þær eru full eldaðar og þá á kjöthitamælirinn að sýna 84°C. Eldfasta mótið er tekið út og ferskum kóríander stráð yfir ef fólk fílar kóríander, sem er alls ekki allra, því annað hvort elska einstaklingar kóríander eða hata. Svona til gamans þá er talið að það sé líffræðileg ástæða fyrir því að sumum þykir kryddið smakkast eins og sápa. Gott er að bera kjúklingabringurnar fram með fersku salati og kaldri hvítlaukssósu.

Eftirréttur:
Eftirréttur þarf aldrei að vera flókinn. Góður ís frá Kjörís klikkar seint og ávextir í dós. En ef þið viljið láta líta út fyrir eitthvað annað þá er hægt að taka pönnuköku, leggja hana yfir mjólkurglas og setja inn í örbylgjuofn í ca. 1½  mín. leyfa henni svo að kólna niður. Þá eru þið komin með mjög svo glæsilega skál fyrir ísinn.

Ég ætla að skora á vinkonu mína, Valgerði Pálsdóttur að koma með næstu uppskrift. En Valgerður er mikill matgæðingur og eldar virkilega góðan mat sem yfirleitt kemur beint frá býli eða ný dreginn á land.