6.1 C
Selfoss

Endurhannaður vindmyllugarður í Búrfellslundi

Vinsælast

Stefán K. Sveinbjörnsson og Guðlaugur Þórarinsson frá Landsvirkjun komu á fund sveitastjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps nýlega og kynntu nýja hönnnun á vindmyllugarði í Búrfellslundi. Helstu breytingar frá fyrri tillögum eru að ásýndaráhrif fyrirhugaðra vindmylla er mun minni en var ásamt því að tekið er tillit til fyrirhugaðra friðlýsinga í Þjórsárdal. Dagskráin hafði samband við Stefán og bað hann um að segja nánar frá verkefninu.

„Búrfellslundur er fyrsti og eini vindmyllugarðurinn til að fara í gegnum mat á umhverfisáhrifum á Íslandi. Verkefnastjórn rammaáætlunar setti eldri útfærslu Búrfellslundar í biðflokk, en eins og kunnugt er hefur tillaga verkefnastjórnar ekki verið afgreidd á Alþingi.

Þar sem þetta var okkar fyrsta verkefni höfum við lært mikið af ferlinu, sérstaklega hvernig er best að hanna vindmyllugarð með tilliti til landslags og ásýndar.“

Tillit tekið til ábendinga úr nærsamfélaginu
„Við endurhönnun Búrfellslundar nýttum við okkur reynslu erlendra landslagsarkitekta með mikla reynslu af hönnun vindmyllugarða. Markmiðið með nýju útfærslunni var að taka tillit til ábendinga sem komu fram í nærsamfélaginu og í mati á umhverfisáhrifum, en með því að staðsetja vindmyllurnar einungis vestan megin við Sprengisandsleið skerðist útsýni ekki frá veginum að Heklu.

Innan nýja svæðisins eru allir innviðir, t.d. vegir, tengivirki og rafmagnslínur, enda er það á Þjórsársvæðinu, stærsta starfssvæði okkar, þar sem við starfrækjum sex aflstöðvar.

Helstu áhrif vindmylla eru á ásýnd og landslag, en þau eru að mestu afturkræf, því hægt er að taka vindmyllur niður eftir líftíma verkefna.“

 

Stór tæknifyrirtæki velja gjarnan vindorku fyrir gagnaver sín
Samkvæmt útfærslunni er uppsett afl Búrfellslundar allt að 200 MW, en mögulegt er að byggja vindmyllugarða í áföngum, eftir þeirri aflþörf sem samfélagið kallar á hverjum tíma.

Reglugerðarumhverfi fyrir vindorku hefur ekki verið fullmótað af stjórnvöldum og mikilvægt fyrir framhaldið að úr því verði bætt. Mikill uppgangur er í vindorku á heimsvísu, en verð fyrir uppsett afl vindorku hefur lækkað um meira en helming á síðustu 10 árum.

Stærstu tæknifyrirtæki heims, (Facebook, Google, Amazon, Apple, Microsoft) velja Norðurlönd í auknum mæli til að byggja gagnaver, en fyrirtækin velja gjarnan vindorku fyrir gagnaverin.

Spáð er miklum uppgangi í vindorku á næstu árum í tengslum við lækkun á kostnaði vindorku, en vindorka er endurnýjanlegur orkugjafi, með lágt kolefnisspor og er afturkræfur.“

Nýjar fréttir