-6.1 C
Selfoss
Home Fréttir Heilsueflandi Árborg

Heilsueflandi Árborg

0
Heilsueflandi Árborg
Guðmundur Guðmundsson, á sæti á lista Framsóknar og óháðra í Árborg.

Það er fagnaðarefni að bæjarstjórn Árborgar hefur sótt um að Sveitarfélagið Árborg verði heilsueflandi sveitarfélag.

Heilsueflandi samfélag er heildræn nálgun á almennri lýðheilsu sem Embætti landlæknis vinnur að í samstarfi og samráði við sveitarfélög, opinberar stofnanir, frjáls félagasamtök o.fl. Tilgangurinn er að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa sveitarfélagsins. Mikilvægt er að stuðla, svo sem kostur er, að almennri lýðheilsu og hvetja íbúa til hreyfingar og hollra lífshátta. Það á ekki síst við um eldra fólk sem þarf nauðsynlega hreyfingu og brýnt er að koma til móts við þarfir þess hvað þetta varðar.

Janus Guðlaugsson, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, hefur gert viðamikla rannsókn á áhrifum þjálfunar á hreyfigetu, vöðvakraft, þol og líkamsþyngd meðal fólks á aldrinum 71–90 ára. Þátttakendur í rannsókninni stunduðu daglega þolþjálfun og kraftþjálfun tvisvar í viku í sex mánuði. Einnig fengu þeir ráðgjöf um matarræði. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu fram á jákvæð áhrif á hreyfigetu bæði hjá körlum og konum. Þjálfunin hafðí áhrif til lengri tíma.

Í ársbyrjun 2018 gerði Hafnarfjarðarbær samning við Janus Heilsueflingu slf. um heilsueflingu eldri borgara í Hafnarfirði, fyrir allt að 160 þátttakendur 65 ára og eldri. Það er þolþjálfun einu sinni í viku og styrktarþjálfun tvisvar í viku. Hver þátttakandi fékk einstaklingsmiðaða æfingaskrá sem gerð var í kjölfar mælingar á þreki, styrk og líkamlegu ástandi hvers og eins. Æfingar fara fram í fámennum hópum undir leiðsögn fagfólks. Þá er þátttakendum einnig boðið upp á fyrirlestra um hollt matarræði og lífstíl. Árangur þessa verkefnis hefur verið það góður að samningurinn var framlengdur fyrir árið 2019. Sambærilegt verkefni fyrir eldri borgara í Árborg félli vel að ákvörðun um heilsueflandi Árborg og hvet ég bæjaryfirvöld til að huga að því í samráði við félög eldri borgara í sveitarfélaginu.

Að tilhlutan Félags eldri borgara Selfossi tók bæjarstjórn ákvörðun um að gerður verði heilsustígur umhverfis lóðir sjúkrahússins og væntanlegs hjúkrunarheimilis og tekið mið af því við hönnun lóðar hjúkrunarheimilisins. Vel gerður heilsustígur á þessum stað – fær fólki í hjólastólum og fólki með göngugrind – mun gagnast vel íbúum í húsnæði eldri borgara við Grænumörk og Austurveg og einnig rólfæru vistfólki á Fossheimum og Ljósheimum og væntanlegu hjúkrunarheimili. Það mun stuðla að betri heilsu og vellíðan eldri borgara á Selfossi.

Í þessari grein hef ég einkum vikið að heilsueflingu eldri borgara því þar er þörfin mikil. Gleymum þó ekki að megintilgangur með heilsueflandi Árborg hlýtur að vera að skapa aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Getum við ekki verðið sammála um það?

Guðmundur Guðmundsson, á sæti á lista Framsóknar og óháðra í Árborg.