11.7 C
Selfoss
Home Fréttir Unnið að heildarstefnu í almenningssamgöngum

Unnið að heildarstefnu í almenningssamgöngum

0
Unnið að heildarstefnu í almenningssamgöngum

Lögð hafa verið fram til kynningar drög að fyrstu heildarstefnu ríkisins í almenningssamgöngum á landi, sjó og lofti. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnti drögin nú á dögunum. Drögin hafa verið birt í samráðsgátt stjórnarráðsins til umsagnar undir yfirskriftinni Ferðumst saman – drög að stefnu í almenningssamgöngum.

Markmið stefnunnar er að stuðla að umhverfisvænni, öruggari og þjóðhagslega hagkvæmari umferð um land allt samfara aukinni notkun almenningssamganga. Þá er lögð fram tillaga að fimm stærri skiptistöðvum. Ein þeirra verður staðsett á Selfossi gangi drögin eftir. Þá er lagt til að upplýsingar um leiðarkerfi verði í sameiginlegri upplýsingagátt, hægt verði að kaupa einn farmiða alla leið ásamt því að fargjöld verði lækkuð og þjónustan gerð aðgengilegri fyrir almenning svo dæmi séu tekin um leiðir sem nefndar eru í stefnudrögunum.

Meðal þess sem kallað hefur verið eftir af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga er heildarstefna í samgöngumálum. „Við höfum talað fyrir því að ríkið komi með heildarstefnu í almenningsamgöngunum og að þeim fylgi nægjanlegt fjármagn til þess að þjónustan við notendur verði sem best. Við fögnum því drögunum og munum vinna að þessu til heilla fyrir samfélagið á Suðurlandi“, segir Eva Björk Harðardóttir, formaður stjórnar SASS.