0.6 C
Selfoss
Home Fréttir Mikilvægi hreyfifærni barna og máttur okkar

Mikilvægi hreyfifærni barna og máttur okkar

0
Mikilvægi hreyfifærni barna og máttur okkar
Díana Gestsdóttir, lýðheilsufulltrúi í Sveitarfélaginu Árborg.

Vissir þú að…

Börn nota hreyfingar til að sýna tilfinningar sínar, tjá sig og kanna heiminn og sjálfan sig með þeim. Barn þarf mikla og fjölbreytta hreyfingu til að stuðla að heilbrigðum lífsstíl. Heilbrigður lífsstíll, andlega og líkamlega ýtir undir eðlilegan þroska- og hreyfiþróunarferil. Hver einasta hreyfing, hvort sem hún er stór eða smá er afleiðing margra flókinna hluta í líkama þeirra. Til að börn viðhaldi hreysti og þroskist eðlilega er mikilvægt að þau fái að hreyfa sig. Þróun á grundvallar hreyfimynstrum og eðlileg þróun stoðkerfis er háð því að barn fái að stunda hreyfingu í talsverðum mæli. Embætti Landlæknis ráðleggur börnum og unglingum að hreyfa sig í minnst 60 mínútur á dag af meðal- til mikillar ákefðar. En rannsóknir sýna að mörg börn ná ekki að uppfylla ráðlögð viðmið um hreyfingu daglega. Umhverfið sem börn alast upp í er eini þátturinn sem við höfum bein áhrif á til að auka og bæta hreyfiþróun barna. Þeir mismunandi þættir sem barnið kemst í tengsl við í uppvextinum eiga allir sinn þátt í að móta hreyfifærni barnsins.

Börnin okkar – framtíðin okkar

Börn þurfa tækifæri til þess að þjálfa færni í gegnum fjölbreyttan hreyfileik þar sem hreyfifærni þeirra og líkamshreysti þroskast í gegnum hreyfingu og leiki í daglegu lífi, t.d. með því að klifra eða hoppa. Börn sem búa yfir góðri hreyfifærni eiga meiri möguleika á að þróa með sér færni sem notast er við í leikjum og íþróttum. Eins eiga þau auðveldara með að taka þátt í hreyfingu heldur en börn sem stríða við hreyfivanda. Þannig er staða barns í hreyfifærni forsenda fyrir þátttöku í hreyfingu sem leiðir svo af sér reynslu í hreyfingu og frekari þróun á hreyfifærni.

Ef barn fær ekki tækifæri til að þjálfa sig í tiltekinni færni gefur það augaleið að það nái ekki árangri og því getum við sagt að engar framfarir verði án þjálfunar. Tækifærin sem felast í nánasta umhverfi barnanna sem þau leika sér í daglega eru dýrmæt en vilja oft gleymast. Til að sporna við hreyfivanda eru stofnanir eins og leikskólinn mjög mikilvægur hlekkur og þar eru mörg tækifæri til að efla hreyfiþróunina.

Þú ert fyrirmyndin

Mikilvægt er að auka hreyfingu barna snemma á ævinni, talið er að hreyfing og kyrrsetuhegðun haldist nokkuð stöðug frá snemmæsku og til fullorðinsára. Jákvæð fylgni er á milli þess að börn séu virk á sínu aldursskeiði verði þau virk á seinni aldursskeiðum og minnki þar með líkurnar á að þróa með sér langvinna sjúkdóma, þar með talið óvirkni sem einn af áhættuþáttunum.

Mikilvægt er að stuðla að heilbrigðu og hvetjandi umhverfi fyrir yngstu börnin sem eru framtíðin okkar. Börn eru sjaldnast meðvituð um mikilvægi hreyfingar og því er nauðsynlegt að foreldrar og kennarar séu þeim góðar fyrirmyndir og temji sér heilbrigðan og góðan lífsstíl.

Margt er vel gert en betur má ef duga skal

Við erum heppin hér í Árborg, strax við tveggja mánaða aldur er hægt að byrja með börnin í ,,Guggusundi” og rúmlega eins árs mega þau byrja í íþróttaskólanum, fjögurra ára mega þau meðal annars byrja í fimleikum, fótbolta og frjálsum. Eins finnst mér vert að nefna að á Íslandi stöndum við mjög framarlega þegar kemur að menntun þjálfara og er íþróttastarfið einstakt og forvarnargildi þess til fyrirmyndar á heimsvísu.

Margt er vel gert en betur má ef duga skal og alltaf má gera betur. Með heilbrigði og forvarnir að leiðarljósi skora ég á Sveitarfélagið að leyfa hvatagreiðslum að byrja við fæðingu eins og tíðkast í allavegana sex Sveitarfélögum, það gæti reynst fjölskyldum hvatning til hreyfingar og í leiðinni er stuðlað að réttindum barna og heilsusamlegra samfélagi. Það getur tekið í buddu foreldra að greiða fyrir þátttöku barna sinna í íþróttum í dag en ég lít svo á að hver króna sem ég set í íþróttastarf fyrir mín börn sé ein allra besta fjárfestingin til framtíðar og ég skora á alla foreldra að hugsa slíkt hið sama. Ef við stefnum á að verða Heilsueflandi samfélag sem og barnvænt velferðarsamfélag þá þurfum við að hugsa um fyrirbyggjandi aðgerðir.

Það er mun ódýrara að fyrirbyggja en að meðhöndla, eins og máltækið segir að seint sé að byrgja brunninn, þá barnið er dottið ofan í.