1.7 C
Selfoss

Allt sem við framleiðum er úr endurunnu efni

Vinsælast

Blaðamaður Dagskrárinnar kynnti sér vinnustofuna Kjallarann sem starfrækt er í Hrunamannahreppi. Fyrir svörum sat Else Nielsen, þroskaþjálfi og verkefnastjóri á Vinnustofunni Kjallaranum á Flúðum.

Hvernig byrjaði vinnustofan Kjallarinn?

„Vinnustofan Kjallarinn hóf starfsemi sína haustið 2017. Ung kona sem búsett er í Hrunamannahreppi þurfti aukna þjónustu í heimabyggð og ákváðu foreldrar og ég sem er þroskaþjálfinn hennar, í samvinnu við sveitarfélagið, að búa til vinnuaðstöðu fyrir hana í kjallaranum í Heimalandi á Flúðum. Þar eru eldriborgarar sveitarinnar með aðstöðu og hittast einu sinni í viku yfir veturinn. Í Heimalandi fengum við að nota gamla læknisherbergið, svokallaða, sem ekki var lengur í notkun. Fyrstu verkefnin okkar fólust í að líma á grænmetisumbúðir fyrir garðyrkjubændur og tæta niður pappír. Unga konan keypti sjálf pappírstætarann en fékk til þess styrk frá Kvenfélagi Hrunamannahrepps og  Svf. Hrunamannahreppi. Hægt og rólega bættust fleiri verkefni við starfsemina eins og að rífa niður gömul sænguver og handklæði í tuskur sem voru svo seldar sem bílskúrstúskur hjá VISS á Selfossi. Okkur voru svo gefin falleg efni sem hægt var að sauma taupoka úr og upp kom sú hugmynd að kaupa saumavél. Kvenfélag Hrunamanahrepps brást hratt við og gaf okkur overlook saumavél. Með þessari vél komu ný tækifæri og fórum við að sauma eldhústuskur, fjósatuskur, leikskólatuskur, bossaklúta og andlitssklúta úr handklæðum sem við fáum gefins.“

Hvað eru margir sem vinna í Kjallaranum?

„Í dag eru fjórir starfmenn sem sækja vinnu í Kjallarann og tveir leiðbeinendur. Aðstaðan hefur stækkað út fyrir læknisherbergið. Kjallarinn er ekki bara fyrir Hrunamenn, einn starfsmaðurinn okkar er úr Skeiða og Gnúpverjahreppi. Sumir vinna frá 9.00 til 14.30 en aðrir eru með styttri vinnudag.“

Hver eru helstu verkefnin í dag?

„Helstu verkefnin í dag eru að endurvinna handklæði og önnur efni sem okkur eru gefin, saga út trévörur, tæta bókhald og annan pappír og líma á grænmetisumbúðir. Í samvinnu við sveitafélagið var keyptur flottur ruslavagn og ef veðrið er gott förum við líka út að tína rusl. Við ætlum líka að prófa að búa til kerti og erum farin að safna kertaafgöngum. Það er eiginlega hægt að segja að allt sem við erum að framleiða sé úr endurunnu efni.“

Hvernig hefur verkefninu verið tekið?

„Fólk er rosalega duglegt að muna eftir okkur. Ef okkur vantar eins og  t.d. málningu eða tvinna auglýsum við eftir því á Facebook og fáum alltaf góð viðbrögð. Við erum rosalega þakklát fyrir það og starf Kjallarans væri ekki svona öflugt án allra okkar velunnara.“

Hvaða þýðingu hefur svona starfsemi fyrir notendur?

„Vinna og þáttaka í atvinnulífi er okkur öllum mikilvægur þáttur fyrir  sjálfsmynd okkar, einnig hjá fólki sem af einhverjum ástæðum hefur minni starfsgetu en aðrir. Að eiga kost á vinnu eru mannréttindi. Í Kjallaranum fá allir tækifæri til að finna eitthvað við sitt hæfi og er verkefnum skipt niður eftir getu og áhuga. Það er nefnilega þanning að enginn getur allt en allir geta eitthvað og þannig vinnum við saman. Það er líka mjög mikilvægt fyrir notendur að geta sótt vinnu í sinni heimabyggð. Í dag er vinnustofan okkar orðin útibú frá VISS vinnu- og hæfingarstöð á Selfossi og er það stór ávinningur bæði fyrir vinnustofuna og starfsfólkið sem þar vinnur. Við störfum eftir sömu stefnu og VISS, eftir lögum um málefni fatlaðs fólks nr. 152/2010 og reglugerð um atvinnumál fatlaðs fólks og atvinnustefnu VISS.“ Þeim sem langar að kynna sér starfsemina betur geta fundið hana á Facebook undir nafninu Vinnustofan Kjallarinn.

 

 

Nýjar fréttir