9.5 C
Selfoss
Home Fastir liðir Hreyfing skiptir máli

Hreyfing skiptir máli

0
Hreyfing skiptir máli
Inga Sjöfn Sverrisdóttir, sjúkraþjálfari lyflæknisdeildar HSU.

Regluleg hreyfing hefur fjölþættan ávinning fyrir heilsuna eins og vísindarannsóknir staðfesta. Þetta eru eflaust ekki nýjar fréttir fyrir flesta en nauðsynlegt er að vekja máls á þessu og vonandi hvetja einhverja til að byrja að hreyfa sig. Eins og kemur fram í ráðleggingum frá landlækni má minnka líkur á að fá kransæðasjúkdóma, heilablóðfall, sykursýki af tegund 2, sumar tegundir krabbameina, stoðkerfisvandamál og geðröskun með reglulegri hreyfingu. Umfram allt eykur regluleg hreyfing líkurnar á að fólk lifi lengur og við betri lífsgæði en annars. Það er því til mikils að vinna og mikilvægt að við látum þetta ekki vaxa okkur í augum.

Það að velja sér hreyfingu og koma sér af stað vefst þó fyrir mörgum ekki síst núna þegar vitundarvakning um mikilvægi hreyfingar á heilsu okkar er svo mikil og úr mörgu að velja. Staðreyndin er sú að hreyfing þarf alls ekki að vera flókin eða að kosta mikið þó það sé vissulega hægt að fjárfesta í verri hlutum en heilsunni. Hreyfing á að vera skemmtileg en ekki kvöð svo að sem betur fer eru valkostirnir margir.

Ráðleggingar og rannsóknir mæla með því að fullorðið fólk hreyfi sig í um 30 mínútur á degi hverjum óháð áreynslustigi hreyfingarinnar. Það eitt að velja stigann í stað lyftunnar, leggja í stæðið sem er lengra frá áfangastaðnum, velja að ganga eða hjóla í stað þess að keyra, telur allt inn í okkar dagskammt af hreyfingu. Hreyfing veitir okkur vellíðan og er fyrir alla, bæði konur og karla, börn jafnt sem aldna. Lítum bara á börnin sem hreyfa sig svo fimlega, við höfum þetta að vissu leyti í okkur. Ef við erum að bíða eftir rétta deginum til að byrja þá er svarið „strax í dag“, það er til mikils að vinna. Það á því vel við að segja, „hreyfing í dag er okkur í hag”.

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Inga Sjöfn Sverrisdóttir, sjúkraþjálfari lyflæknisdeildar HSU