-6.1 C
Selfoss
Home Fréttir Af hverju sagði úlfurinn Rauðhettu að fara inn í skóginn?

Af hverju sagði úlfurinn Rauðhettu að fara inn í skóginn?

0
Af hverju sagði úlfurinn Rauðhettu að fara inn í skóginn?
Helga Þórey Rúnarsdóttir, leikskólakennari og deildarstjóri í heilsuleikskólanum Árbæ á Selfossi.

Á tækniöld eins og nú hafa orðið örar og miklar breytingar á stuttum tíma. Spjaldtölvur og snjallsímar eru til á mörgum heimilum og því getur reynst mun einfaldara að sækja sér afþreyingu en áður. Það sem áður stytti okkur stundir vill því oft gleymast eins og lestur, almennt spjall um daginn og veginn, spil og fleira sem reynir á samskipti okkar.

Orðaforði barns getur haft áhrif á hvernig mun ganga að læra að lesa

Fjölda margar rannsóknir undanfarin ár hafa sýnt hvernig orðaforði barna getur haft áhrif á hvernig lestrarfærni þeirra verður. Barn sem á notalega stund með foreldri á hverjum degi þar sem ýmist er spjallað, lesið eða sungið mun að öllum líkindum eiga auðveldara með að læra að lesa en það barn sem ekki fær þessa gæðastund með foreldrum sínum.

Frá tveggja ára aldri og til tveggja og hálfs árs margfaldast orðaforði barna yfirleitt. Orðaforðinn fer frá u.þ.b. 200–300 orðum uppí tæplega 600 orð. Þegar börn hafa svo náð þriggja ára aldri hefur orðafjöldinn oft náð u.þ.b. 850 orðum. Börn milli tveggja og þriggja ára geta því verið að læra allt að 550 orð á einu ári.  Börn læra ný orð með því að spyrja og því mikilvægt að veita spurningum þeirra athygli og grípa hvert tækifæri sem gefst til að spjalla, syngja eða annað sem eflir orðaforða og hljóðkerfisvitund barnsins. Það er hægt að gera hvar sem er, hvort sem það er við matarborðið, í bílnum, fyrir svefninn, í búðinni eða hvar sem er.

Rúss-í-ba-ni

Hljóðkerfisvitund er hluti af málþroska og er tilfinning og næmni fyrir hljóðum og uppbyggingu tungumálsins. Til að vinna með hljóðkerfisvitund er hægt að gera ýmislegt sem hvorki þarf tæki eða tól og er ekki bundið við stað né stund.

Að ríma, klappa atkvæði (Í-þró-tta-ál-fur), segja orðin hægt og hlusta eftir hljóðum, setja orð saman eins og blóm og pottur=blómapottur, og hljóða orð=sss-óóó-lll, eru allt leiðir sem geta stutt við hljóðkerfisvitund barns.

Hvernig ætlar þú að hjálpa barninu þínu?

Ýmsar aðferðir við orðaforðakennslu eru til og misjafnt er hvað hentar hverju barni.

Orðaspjallsaðferðin byggist á því að velja bók og eitt til tvö orð úr bókinni til að kenna. Þegar kemur að orðinu sem skal kenna í bókinni er það rætt lítillega, leikið með það og lestrinum svo haldið áfram. Þegar bókin er búin er orðið útskýrt enn betur, það rætt í öðru samhengi en í sögunni sjálfri og farið yfir merkingu orðsins. Gott er að velja orð sem eru ekki of einföld heldur til dæmis orð sem lýsa tilfinningum, líðan eða orð sem hægt er að túlka með leikrænni tjáningu.

Önnur aðferð sem foreldrar geta stuðst við til að hjálpa barni sínu að byggja upp orðaforða er þátttökulestur. Þátttökulestur og orðaspjallið passa vel saman en báðar aðferðir er hægt að nota hvar sem er, einungis þarf bókina sem á að lesa. Í þátttökulestri er gott að lesa sömu bókina oft, í minnst 10 mínútur á dag. Þátttökulestur byggist á því að a) hvetja barnið til þess að spyrja og spyrja það einnig – Dæmi: Hvað var Rauðhetta með í körfunni? Hvar sá Rauðhetta úlfinn? b) Gagnvirkur lestur-spyrja börnin spurninga á móti þeirra spurningum eða athugasemdum og c) breyta lesstíl eftir áherslu og þroska barns – Dæmi: Leika raddir. Ekki leggja áherslu á að læra litina í bókinni ef barnið kann þá nú þegar.

Lesum saman – spjöllum saman

Börn eru forvitin að eðlisfari og spyrja spurninga. Eins og kom fram í byrjun er gríðarlega mikilvægt að veita spurningum þeirra athygli. Börn vilja læra og leita stöðugt svara. Börn læra allsstaðar í umhverfinu og fer mikið nám fram í leik- og grunnskólum. Það sem þau læra þar jafnast þó aldrei á við gæðastund sem barnið á með mömmu eða pabba þar sem rætt er um daginn og veginn, helstu vini, hvað er skemmtilegt o.s.frv. eða lesin góð bók sem foreldri og barn velja saman. Til þess að barn geti seinna meir lesið sér til gagns og gamans þarf orðaforði þess að vera góður og þar eruð þið foreldrar helstu áhrifavaldar barnsins ykkar.